141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er með þeim hætti að þau verkefni sem þarna voru talin upp áttu sér ákveðna umræðu bæði í fjárlögunum og eins í dag í atkvæðaskýringum sumra hv. þingmanna. En það má aldrei setja þetta einhvern veginn í samhengi. Þá er alltaf svo mikið óréttlæti í því að bera það saman.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson, starfandi forseti, benti einmitt á það í dag að þegar menn væru að úthluta þarna um 250 millj. kr. til viðbótar inn í þessa sjóði þá erum við að setja 50 millj. kr. til íþróttahreyfingarinnar. Þá byrjaði strax umræðan að ekki eigi að bera þetta saman, ekki sé verið að taka frá þessu, þannig að þetta þolir aldrei neina gagnrýna umræðu. En klárlega eru þetta liðir sem hafa verið inni í safnlið, enda er þetta undir safnliðanúmeri í fjárlagafrumvarpinu.

Það er auðvitað dálítið merkilegt og það hefur komið fram, við vorum mjög svekkt yfir því, við sem studdum að breytingar yrðu gerðar á safnliðaúthlutunum í hv. fjárlaganefnd, að þessi leið skuli vera farin. Þar fyrir utan er landsbyggðin að mínu mati að fá miklu minna hlutfall og sérstaklega þegar svona innspýtingar koma inn. Við nefndum 250 millj. kr. inn í þessa hluti en ekki hefur verið sett króna inn í menningarsamninga sem eru um allt landið, ekki króna, sem eru undir sama fjárlagalið. Það segir auðvitað til um áherslur hæstv. ríkisstjórnar. Það þarf einhvern veginn að gera þetta allt með því að draga þetta á Stór-Reykjavíkursvæðið en setja ekkert í hluti annars staðar. Þetta er bara þannig.

Það er auðvitað mjög dapurlegt að horfið skuli vera frá því samkomulagi sem var þó svona sæmileg sátt um þó að alls ekki væru allir sáttir við það og vöruðu einmitt við því að þá færi framkvæmdarvaldið með meiri hlutanum á hverjum tíma að pikka út sín eigin verkefni. Og það er því miður reyndin. Ég er mjög dapur yfir því.