141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég átta mig ekki alveg á þeirri athugasemd hv. þm. Helga Hjörvars um andsvörin. Ég hef setið undir og hlustað á ræður þingmanna í dag. Og vel að merkja, enn og aftur upplifum við það að ekki eru margir stjórnarþingmenn sem taka þátt í umræðunni. Ég hef grætt mjög á því að hlusta á bæði ræður og andsvör þingmanna í dag og ég trúi ekki að ætlunin sé að segja manni fyrir um það hvað sé boðlegt í andsvörum og hvað ekki. Og að ekki megi ræða fjárlögin eða það mál sem er á dagskrá á eftir, vörugjöldin, í samhengi við þetta frumvarp um tekjuöflun er náttúrlega algerlega út úr kortinu.

Ég viðurkenni þá að mér varð það á í umræðum um fjárlög að ræða um tekjuöflun ríkisins og vörugjöldin. Af hverju gerði ég það? Af því að þetta er allt saman samhangandi. Ég hvet hv. þm. Helga Hjörvar til að hvetja sitt fólk og samherja sína í flokki hans til að koma nú einu sinni og taka þátt í umræðum, hvort sem væri í tengslum við fjárlög eða varðandi tekjuöflunarþáttinn sem er náttúrlega alveg herfilegur. (Forseti hringir.) Þetta verður til þess að við fáum hér meiri umræður.