141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla nú að taka því þannig að þetta hafi verið vel meint af hv. þm. Helga Hjörvar, innlegg hans inn í það hvað betur má fara í þingsköpum. En þá verður að taka allan pakkann með, eins og í óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra, það verði þá krafist þess að rýnt verði í innihaldið, þ.e. þeir svari spurningum sem til þeirra er beint. Og líka það að þegar við erum í andsvörum, fyrst hv. þingmaður vill leggja út í það að það verði alltaf að vera andstæðingar í pólitík sem taki þátt í andsvörum, þá vil ég beina því til hv. þingmanns að hann tali við ráðherra sína og biðji þá náðarsamlegast að svara því sem til þeirra er beint hvort sem það er í gegnum andsvör eða óundirbúnar fyrirspurnir.

Ég tek undir ósk hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um að þingmenn stjórnarflokkanna taki þátt í þessari umræðu, en eins og við vitum öll sem höfum tekið þátt í fjárlagaumræðunni og núna í þessari, þá er einfaldlega umræðubann í gangi af hálfu stjórnarflokkanna.