141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:27]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, þetta er rétt athugað hjá hv. þingmanni. Ég er reyndar ekki alveg viss um að þessi fækkun verði svo mikið úti á landi vegna þess að mér skilst að það sé búið að leggja niður flestar fjármálastofnanir þar en hugsanlega er hægt að leggja niður afganginn af þeim.

Hugsum þetta aðeins. Þessi skattur á að gefa 800 milljónir sem þýðir 800 milljónir í aukinn launakostnað og launatengdan kostnað fyrir bankana. Ef við gefum okkur að meðallaun séu 4–5 milljónir gæti þurft að segja upp allt að 200 manns til að launakostnaður sé jafnsettur hjá fjármálafyrirtækjunum. Ég get ekki fengið annað út en að það séu nokkurn veginn áhrifin af þessu og að þetta muni leiða til þess að störfum fækki.

Tryggingagjaldið sjálft hefur jafnframt áhrif þannig að ég veit ekki hver heildaráhrifin af þessu eru. Eins og svo oft áður er okkur ekki gerð grein fyrir áhrifum þessara skattbreytinga í greinargerð með frumvarpinu. Kannski eru það 400–500 störf í viðbót þannig að það tapist 600–700 störf við þessar breytingar sem virka sakleysislegar í fyrstu en hafa í för með sér ákvarðanir sem leiða til fækkunar starfa og þess að nýtt fólk er síður ráðið inn í fyrirtækin. Þetta er ekkert annað en skattur á laun og við megum heldur ekki gleyma því að þetta minnkar svigrúm fyrirtækjanna til að hækka laun.