141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér sýnist sem þema ríkisstjórnarinnar, ef ég má orða það þannig, hafi allt þetta kjörtímabil verið að hækka skatta, hækka gjöld, auka álögur almennings, heimila og fyrirtækja. Lán heimilanna hækka og það er gert ráð fyrir að þau muni hækka, bara miðað við það sem kemur fram í frumvörpunum.

Mér sýnist að álögur á fyrirtækin hækki líka. Við sáum það í fréttum í gærmorgun, minnir mig frekar en í morgun, að verið var að segja upp fólki í fiskvinnslu í Þorlákshöfn. Það er til viðbótar við uppsagnir austur á landi, minnir mig, fyrir stuttu — ég rugla öllum tímasetningunum saman en það skiptir ekki máli. Þetta eru 63 störf á stuttu tímabili þar sem búið er að segja upp fólki. Þetta skiptir máli. Við erum að tala um Þorlákshöfn og Siglufjörð.

Og það mun bætast við því að þessir skattar og þessi gjöld sem verið er að hækka lenda á öllum fyrirtækjum, fyrirtækjum sem eru með umsvifamikinn rekstur, rekstur bifreiða eða tækja og tóla sem nota olíu eða hvernig sem það er. Að sjálfsögðu er líka mikil hætta á því að ef fjármálastofnanir nota ekki uppsagnir eða lokanir útibúa til að fjármagna þennan bankaskatt, svokallaðan fjársýsluskatt, verði gripið til þess að ná því einhvern veginn í gegnum gjöld sem viðskiptavinir borga.

Ég held að flest það sem kemur fram í þessu tekjuöflunarfrumvarpi sé til þess fallið að þrengja að rekstri fyrirtækja og heimila, sé verðbólguhvetjandi og muni á endanum leiða til uppsagna fólks og hækkana á lánum heimilanna.