141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:31]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg rétt hjá þingmanninum, allir skattar hafa afleiðingar, þeir breyta hegðun og rekstrarákvörðunum. Þetta sem gerðist hjá Auðbjörginni í Þorlákshöfn og á Siglunesi og Nesi á Siglufirði eru hreinar afleiðingar af skattstefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegi.

Það var fróðlegt að lesa viðtal við framkvæmdastjóra eða forstjóra eða eiganda, ég veit ekki alveg hvaða titil hann er með, kannski alla, Auðbjargarinnar í Þorlákshöfn þar sem hann bölvaði því að á þessum tíma væri hann hefðbundið að búa sig undir vetrarvertíðina sem hefst eftir áramót þegar þorskurinn gengur upp að. Núna er hann að takast á við vá sem hann gerði ekki ráð fyrir, þ.e. hringl stjórnmálamanna með rekstrarumhverfi fyrirtækja. Þetta er grafalvarlegt mál og þetta skattahringl er ástæðan fyrir því, sem og það sem við erum búin að sjá undanfarin ár, að hin pólitíska óvissa sem svo er kölluð hefur aukist mikið á Íslandi þannig að við erum á pari við Norður-Afríkuríki, Rússland, Kína og fleiri góð lönd. Pólitísk óvissa er versti óvinur fjárfestanna. Og ef ekki er fjárfest er ekki ráðið nýtt fólk, það er svo einfalt, og ef það er ekki gert verður ekki hagvöxtur hérna og kostnaður eykst í tengslum við atvinnuleysi, velferðarkerfi og annað slíkt (Forseti hringir.) þannig að þetta er raunverulega helstefna sem hefur bitið í skottið á sér og vefur upp á sig stöðugt fleiri vandamálum.