141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þó að mikill vöxtur hafi verið í ferðaþjónustu á undanförnum árum er það engu að síður mikið vandamál í þeirri grein hversu lítil framleiðnin er, hvað hún skilar tiltölulega litlum tekjum miðað við kostnaðinn. Þetta er eitthvað sem menn eru alltaf að reyna að vinna í að bæta. Hluti af því er að lengja árið þannig að fjárfestingin nýtist betur. Engu að síður eru menn á fyrstu stigum í því að byggja ferðaþjónustuna upp, hún er enn á uppbyggingarstiginu.

Þess vegna er svo sérkennilegt að menn skuli ráðast svona hart að ferðaþjónustunni, að grein sem er á uppbyggingarstigi, á þessu viðkvæma stigi. Og sérstaklega í ljósi þess að þegar þessir stjórnarflokkar hafa verið með fögur fyrirheit um framtíðaruppbyggingu og sagst vilja eitthvað annað en það sem menn hafa fjárfest í hér á undanförnum árum — þegar menn hafa gengið á þá með það hvað þeir vilja hefur svarið iðulega verið: Ja, til dæmis ferðaþjónustu.

Hér vorum við fyrr í dag í fjögurra og hálfs klukkutíma atkvæðagreiðslu um fjárlögin. Atkvæðagreiðslan dróst úr hófi fram, ekki síst vegna þess að stjórnarliðar komu hér hver á fætur öðrum til að hrósa sjálfum sér fyrir mikla framtíðarsýn í atvinnumálum, nefndu græna hitt og þetta en þó ekki hvað síst ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta var nefnd í öðru hverju orði þegar verið var að tala um framtíðarsýnina í atvinnumálum.

Á sama tíma er þetta sama fólk að leggja á skatta sem gera greininni mjög erfitt fyrir að vaxa og jafnvel erfitt fyrir að þrífast, geta jafnvel stefnt rekstri fjölmargra fyrirtækja í hættu, ekki hvað síst lítilla fjölskyldufyrirtækja, þar sem menn hafa verið að byggja upp undanfarin ár og tekið sér lítil laun.