141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Við ræðum tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins eða hluta hennar, frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, svokallaðan bandorm, þar sem ótrúlegt hugmyndaflug ríkisstjórnarinnar kemur sterklega fram hvað skattahækkanir varðar. Við höfum rætt það hér og ég nefndi það ítrekað í ræðu minni við 2. umr. fjárlaga hversu vond stefna ríkisstjórnarinnar hvað skattapólitík ríkisstjórnarinnar varðar og hversu ómarkviss og hversu öfugsnúin sú stefna er sem verið er að framfylgja hér, vonandi í síðasta sinn. Vonandi berum við gæfu til að breyta um stjórnarstefnu eftir kosningarnar í apríl.

Ég hef afar stuttan tíma til að fara í þetta stóra frumvarp með öllum þeim breytingum sem þar liggja fyrir, en þrátt fyrir að búið sé að ræða virðisaukaskatt á ferðaþjónustu ítrekað ætla ég að gera þá skattlagningu sérstaklega að umtalsefni á eftir. Fyrst ætla ég þó að nefna nokkur önnur atriði.

Þar ber fyrst að nefna þau misvísandi skilaboð sem um er að ræða. Verið að hækka alla skatta sem hægt er að hækka, hvort sem það er á eldsneyti, áfengi, tóbak eða vegabréf. Útvarpsgjaldið, nefskatturinn, er að hækka og verið er að skattleggja allt sem nöfnum tjáir að nefna. Skattar eru hækkaðir á áfengi og tóbak og bensíngjaldið, olíugjaldið, kílómetragjaldið, bifreiðagjaldið og gjald fyrir vegabréf eru hækkuð vegna verðlagsforsendna.

Á blaðsíðu 20 í greinargerð í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu eru einnig tillögur um almenna 4,6% hækkun á hinum svokölluðu krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins með það að markmiði að fjárhæðirnar haldi raungildi sínu frá fyrra ári.“

Það er mjög merkilegt og er ágætt að ríkisstjórnin hafi þá þá stefnu að verðbæta fjárlagafrumvarpið. Hér hafa hækkanir ekki fylgt verðlagi en það er skrýtið vegna þess að á öðrum stað í fjárlagafrumvarpinu, og ég vakti athygli á því í atkvæðagreiðslunni í dag, er dæmi um atriði þar sem verðlagsbæturnar vantar sárlega, það er vegna Brunavarna Suðurnesja, vegna samnings um sjúkraflutninga, þar var ekki verðlagsbætt. Þar var bara gerð 1% hækkun á samningi sem hækkaði um 4,6%, nákvæmlega eins og áfengið og tóbakið, en það þarf ekki að verðlagsbæta sjúkraflutningana af því að það er á gjaldahliðinni. Það er lítið dæmi en mjög lýsandi fyrir tvískinnunginn sem hér er að finna.

Að ferðaþjónustuskattinum. Þar er sama taktíkin sem ríkisstjórnin hefur notað allt kjörtímabilið. Hún kemur fram með svo galnar hugmyndir að öllum bregður við. Þá er hægt að koma með aðeins minna galnar hugmyndir og þá verða allir svo ánægðir með að menn hrökkvi aðeins til baka með breytingarnar að almenningur sættir sig við þær.

Við þekkjum það úr fiskveiðistjórnarkerfinu. Fyrst koma frumvörpin sem valda því að allt ætlar um koll að keyra en svo reynir ríkisstjórnin að setja inn einhverjar breytingar með því að taka einhver atriði út, en punkturinn er þessi; þetta er enn þá jafngalið.

Hækka á virðisaukaskatt á gistingu samkvæmt tillögu frumvarpsins, úr 7% í 14%. Þegar fjárlagafrumvarpið kom fram frá hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Oddnýju G. Harðardóttur, átti að færa skattinn upp í 25,5%, enda bara um tvö skattþrep að ræða í kerfinu. Oddnýjarskatturinn átti að vera 25,5%. Að sjálfsögðu brugðust aðilar í ferðaþjónustu hart við og notuðu einmitt það orð um skattinn, Oddnýjarskattur, og framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar sagði að þetta væri galin hugmynd. Síðan er skipt um fjármálaráðherra og hæstv. núverandi fjármálaráðherra Katrín Júlíusdóttir fær það hlutverk að milda hina gölnu skattahækkun, Oddnýjarskattinn. Svo kemur fram frumvarp þar sem skattahækkunin er „aðeins“ 7% og núverandi hæstv. fjármálaráðherra kallar það mildari leið.

Við getum skoðað viðbrögð ferðaþjónustunnar við því. Gagnrýnin var ekki síst á vinnubrögðin og hinn skamma fyrirvara. Um er að ræða atvinnugrein sem gerir áætlanir sínar langt fram í tíma, ólíkt ríkisstjórn Íslands. Breytingin kemur allt of seint fram og jafnvel þó að skatturinn sé lækkaður úr 25,5% í 14% mun hann bitna á gististöðunum því að menn ráða illa við hækkunina. Það er löngu búið að gefa út verðskrá fyrir komandi ár og þegar hafa verið gerðir samningar við hópa og jafnvel einstaklinga sem bóka sig sjálfir.

Flækjustigið. Hugsum okkur ferðamann sem byrjar daginn á því að fá sér morgunmat á gististaðnum, þá er 7% virðisaukaskattur á matnum. Hann gerir upp herbergið, það er 14% skattur. Hann fer finnur sér afþreyingu, fer í rútu eitthvert og fer í hvalaskoðun, þar er enginn virðisaukaskattur. Í dagslok fer hann á barinn og fær sér drykk og þá er virðisaukaskatturinn kominn í 25,5%. Þannig að einn gististaður þarf að gefa út reikning miðað við fjögur þrep. Það sjá það allir að flækjustigið er gríðarlegt. Hver ætlar að hafa eftirlit með því ef herbergið verður verðlagt þannig að það er ódýrara, morgunmaturinn hafður dýrari til þess að komast hjá því að greiða þennan skatt?

Ég held því alls ekki að fram að svört atvinnustarfsemi sé aðeins vandamál innan þessarar atvinnugreinar, eins og hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar hafa sagt um þessa atvinnugrein með mjög ósmekklegum hætti, heldur held ég því fram, og það er það sem vinstri flokkarnir skilja ekki, að skattahækkun sé ekki einhver föst stærð, einhver krónutala, maður hækkar skatt úr 7% í 14% og fær sömu upphæðina.

Skattahækkun breytir hegðun. Skattahækkun leiðir til þess að fólk gerir hlutina öðruvísi til að þurfa ekki að borga jafnhátt verð. Þess vegna held ég að það sé bjartsýni að áætla að 1,1 milljarður komi inn af tekjum vegna þessarar skattahækkunar fyrir næsta ár, ég mundi halda að hægt væri að leggja það til við fólk að það greiddi gistinguna fyrir fram og gengi frá því áður en skattahækkunin gengi í garð, þannig að þær eru tekjur sem eru alls ekki fastar í hendi.

Síðan skulum við tala um samkeppnina. Einhver sagði í umræðunni að nú væri verið að færa skattinn í svipað horf og í samkeppnislöndum okkar. Nú skulum við líta á ESB, uppáhald Samfylkingarinnar — og inn gengur hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, formaður Heimssýnar, hann þyrfti að hlusta á þetta. (Gripið fram í.) Rætt er um að við séum með svo lágan skatt og að við glötum ekki samkeppnishæfni okkar út af 14% virðisaukaskatti.

Í fyrirheitna landinu ESB eru 23 þjóðir af 27 með gistinguna í lægra þrepi. Meðalvirðisaukaskattur í Evrópu er 10% og ríkisstjórn Íslands hækkar hann hér. Ætli það sé ekki vegna þess að við stöndum einum of vel í samkeppninni? Gerðar hafa verið ýmsar breytingar á undanförnum árum og hæstv. fjármálaráðherra og fleiri vísuðu í það í umræðunni í dag að ferðaþjónustan geti vel þolað 14% virðisaukaskatt vegna þess að hún var í því þrepi fyrir ekki svo löngu síðan. (Gripið fram í.) Já, en það gleymist alltaf að taka það með í reikninginn að þá var neðra þrepið 14%. Það var ekki þannig að ferðaþjónustan væri ein þar eins og lagt er til hér heldur var neðra þrepið 14%. Í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins var það lækkað niður í 7% og við getum alveg tekið umræðu um það á eftir hvort bilið á milli 7% og 25,5% sé of mikið og hvort við eigum að vera með mismunandi virðisaukaskattsþrep eða ekki. Það er umræða sem ég er algjörlega tilbúin að taka og sem fara þarf fram.

Ég er þeirrar skoðunar að við ættum að stefna að því fyrr en síðar að hafa eitt virðisaukaskattsþrep og hafa það það lágt þannig að það sé hlutlaust hvað neyslu og hegðun varðar. Þannig verður fólki gert kleift að taka ákvarðanir sínar sjálft.

Í öðru frumvarpi um vörugjöld, sem við eigum eftir að ræða hér annaðhvort seinna í dag eða síðar, er önnur skattahækkun sem á að breyta hegðun fólks, það er hinn svokallaði sykurskattur sem á að megra okkur fyrir jólin. Við þurfum ekki lengur í kjólinn fyrir jólin-kúrinn. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, það er ekki íslenski kúrinn, það er skattakúr ríkisstjórnarinnar sem við verðum öll sett á hvort sem okkur líkar betur eða verr. En reyndar var slíkur skattur lagður á í Danmörku fyrir um það bil ári síðan og nú viðurkenna Danir að sú tilraun gekk ekki upp. Skatturinn var flókinn, það kostaði miklu meiri peninga að reikna hann út og viðhalda honum, stjórnsýslukostnaður var óheyrilegur plús það að manneldismarkmiðin gengu ekki upp, væntanlega vegna þess að menn grenntust ekki nægilega mikið. Sem sagt: Manneldismarkmiðin gengu ekki upp, tekjurnar voru lágar og stjórnsýslukostnaðurinn of hár. En þá fer norræna velferðarstjórnin af stað og ákveður að skella á svona skatti í stað þess að læra af hinum Norðurlöndunum eins og hún þykist nú alltaf gera.

Herra forseti. Ég mundi vilja ræða miklu fleiri atriði hér. Ég vil aðeins nefna bílaleiguskattinn, að hætta eigi með undanþágur á vörugjaldi fyrir bílaleigubíla sem verið hafa við lýði hér um nokkurra ára skeið. Það er fróðlegt að lesa ástæðuna. Rökin fyrir því af hverju það var sett á á sínum tíma eru rakin í greinargerðinni.

Með leyfi forseta:

„… ökutæki sem nýtt eru til atvinnustarfsemi séu án vörugjalds, þjónusta við ferðamenn sem nýti sér bílaleigubíla sé arðvænleg, hátt verð á ökutækjum hafi hamlað uppbyggingu í greininni og því væri markmið breytingarinnar að gera þessa þjónustu betur samkeppnishæfa í samanburði við sömu þjónustu í öðrum löndum.“

Það voru rökin fyrir því að setja undanþágu á vörugjöld á innflutta bílaleigubíla, þ.e. til að efla samkeppnishæfni íslenskra bílaleigna. (Forseti hringir.) Við erum nefnilega ekki að keppa innbyrðis um ferðamennina, við erum að keppa við önnur lönd. (Forseti hringir.) Með þessum bandormi eru stór skref tekin í þá átt að skaða samkeppnishæfni Íslands.