141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, veistu, það er sannarlega áhyggjuefni. Reyndar kemur það mér ekki á óvart að við séum svo neðarlega og það væri fróðlegt að sjá hvar við vorum fyrir tíð þessarar ríkisstjórnar fyrir hrun, til að gæta sanngirni. Það er annað sem ég mundi vilja biðja hv. þingmann um að fletta upp, hvar stöndum við þegar pólitískur stöðugleiki og virðing við gerða samninga, réttarríkið margumrædda, er skoðað?

Ég held nefnilega að við höfum hrapað niður á þeim lista. Ég man þegar ég var í vinnu hjá Útflutningsráði 1992–1993, ég var að vinna að verkefni sem átti að draga að erlenda fjárfestingu og skrifaði bæklinga um stöðuna á Íslandi. Þá var alls staðar efst á blaði pólitískur stöðugleiki, virðing fyrir regluverki, að hér væri staðið við gerða samninga og við værum með virkt réttarríki.

Í þessu frumvarpi kemur skýrt fram að ríkisstjórn Íslands stendur ekki við gerða samninga. Þegar bráðabirgðaákvæði renna sitt skeið á enda er bara tekin ný ákvörðun. Ákvörðunin er sú að framlengja skattahækkunina sem átti að renna út þegar bráðabirgðaákvæðinu lyki, en það er ekki kallað að svíkja gerða samninga. Það kallast ný ákvörðun í heimi hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Ný ákvörðun og það er talað um að raforkuskatturinn sé framlengdur núna um þrjú ár. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Hver trúir því?