141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mjög eðlilegt að nefndin fari vandlega yfir þau atriði sem hv. þingmaður minntist á. Frumvarpið sem ég legg fram er eins og það er og þannig verður því vísað til nefndarinnar sem ber að sjálfsögðu skylda til að fara vandlega yfir þessi mál og ég veit að ekkert annað stendur til.

Ég spyr hv. þingmann aftur varðandi raforkuskattinn því að hér hafa margir af samflokksmönnum hans gagnrýnt skattinn sem slíkan og vilja helst ekki sjá hann. Er það rétt skilið hjá mér að hann styðji 10 aura raforkuskatt ef hann er beintengdur við niðurgreiðslur af húshitunarkostnaði? Við fáum það þá fram í þessari umræðu hvort þetta sé réttur skilningur hjá mér og hvort menn geti hugsanlega skoðað þennan raforkuskatt til lengri tíma litið í því samhengi. Ég er alla vega vel til viðræðu við hv. þingmann um það.