141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[21:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af umræðunni um gistináttagjaldið þá er ég farin að hafa meiri áhyggjur af því að umræðan um það í þingsal hafi meiri fælingarmátt en tillagan raunverulega. Staðreyndin er þessi: Sú hækkun sem var boðuð upphaflega með fjárlagafrumvarpinu hefur verið skorin niður svo hún er eingöngu um þriðjungur af því sem boðað var. Það eru 7% sem um ræðir. Við tölum um að vera með virðisaukaskatt á gistiþjónustu, ekki ferðaþjónustuna í heild, í sama hlutfalli og hún var árið 2007. Ég hef áhyggjur af því að umræðan fæli ferðamenn frá þegar verið er að lýsa því yfir að það sé stórhækkun á sköttum í ferðaþjónustunni.

Hv. þingmaður telur að við getum náð því sama út úr ferðamönnum í gegnum náttúrupassa og í gegnum þá 7% hækkun á gistiþjónustu. Hefur það ekki sömu áhrif ef við tökum upp ný og óþekkt gjöld sem eiga að ná inn sömu fjármunum? Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, hvort hv. þingmaður hafi velt þeim þætti fyrir sér. Er ekki eðlilegra að við tökum hækkun upp á sjö prósentustig á gistiþjónustuna, inn í sömu stærð og hún var árið 2007, í staðinn fyrir í nýja og óþekkta gjaldtöku? Virðisaukaskattur á gistiþjónustu eru þekkt gjöld úti um allan heim. Ég vildi velta því upp í umræðunni.

Frú forseti. Ég held að við munum á næsta ári og næstu árum sjá áframhaldandi fjárfestingar í gistingu hér á landi. Það hefur orðið gríðarleg fjölgun í sölu gistinátta á undanförnum árum. Það eru líka stórar fjárfestingar í ferðaþjónustu upp á 180 milljarða, eins og tilkynnt var um í dag, fjárfesting í nýjum flugvélaflota. Menn (Forseti hringir.) hafa sannarlega fulla trú á íslenskri ferðaþjónustu, miklu meiri trú en þingmenn virðast hafa.