141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[21:10]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi nú bara: Heyr á endemi ef umræðan í þingsal á að hafa meiri fælingarmátt en yfirlýsingar ráðherra í sumar. Þær fóru eins og eldur í sinu um ferðaþjónustufyrirtækin og allir þingmenn fengu pósta frá alþjóðlegum ferðaskrifstofum hvaðanæva í heiminum um hvað væri eiginlega í gangi. Að sjálfsögðu hlusta menn á umræðu í þingsal, það er engin spurning, en við höfum ekki talað ferðaþjónustuna niður. Við höfum sagt að það felist gríðarleg tækifæri í henni. Ég vitnaði í McKinsey-skýrsluna þar sem einmitt segir að í ferðaþjónustunni sé nauðsynlegt að auka fjölda ferðamanna til að auka nýtinguna. Það er eina leiðin. Það er búið að fjárfesta heilmikið og það þarf að auka nýtinguna og fá fleira fólk. Þeir sem vörðu stefnu ríkisstjórnarinnar sögðu að tilgangurinn væri meðal annars að fækka ferðamönnum, eða draga úr fjölguninni skulum við segja, svo ég sé nú 100% sanngjarn í garð þeirra sem töluðu þannig.

Hæstv. ráðherra spyr hvort það hafi ekki sömu áhrif. (Gripið fram í: Já.) Nei, ég held það hafi ekki sömu áhrif. Aðilar innan ferðaþjónustunnar eru auðvitað eru ekki sammála um það en ég hef verið mjög lengi á þeirri skoðun að setja ætti á komugjöld hérna. Ég varð mjög svekktur þegar það var tekið út á sínum tíma af því það tekur á öllum þeim sem koma til landsins, líka skemmtiferðaskipunum sem ekki greiða krónu nema í hafnargjöld, eins og við þekkjum.

Staðreyndin er sú að þeir sem koma til landsins, sitja við tölvuna sína heima, kaupa flugmiðann og skoða síðan gistinguna, þeir velja það. Það finnst hins vegar öllum eðlilegt að fara til Íslands og skilja ekkert í því að þeir geti farið hvert sem er á land án þess að borga krónu fyrir að koma inn á náttúrusvæðin. Það að borga einhverja afmarkaða upphæð, sem verður gríðarlega há vegna þess að ferðamönnunum fjölgar, er miklu skynsamlegri leið en að leggja skattinn á þegar menn sitja fyrir framan tölvuna heima hjá sér og velja hvar þeir eigi að gista. Það er sannfæring innan ferðaþjónustunnar (Forseti hringir.) að það muni hafa mun minni áhrif þó svo upphæðin gæti orðið sambærileg.