141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[21:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vörugjald og tollalögum. Í frumvarpinu er að finna umtalsverðar breytingar á almennu vörugjaldi hvað varðar framkvæmd við álagningu gjaldsins og þeim vöruflokkum sem bera vörugjald. Breytingar á tollalögum eru afleiddar af breytingum vegna vörugjalda.

Fyrst varðandi framkvæmdina. Samkvæmt gildandi lögum annast ríkisskattstjóri álagningu vörugjalds á innlendar framleiðsluvörur, auk skráninga og útgáfu vörugjaldsskírteina gagnvart þeim aðilum sem flytja inn vörur án vörugjalds eða fá það endurgreitt. Tollstjóri annast aftur á móti álagningu gjaldsins á innfluttar vörur auk innheimtu þess. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að álagning gjaldsins, bæði á innflutning og innlenda framleiðslu, verði á einni hendi, þ.e. hjá tollstjóra, og skráning og útgáfa vörugjaldsskírteina sömuleiðis. Með þessari breytingu er leitast við að skapa heildarsýn yfir alla þætti kerfisins samhliða meiri samræmingu í álagningu gjaldanna, auk þess að gera kerfið gagnsærra, bæði gagnvart gjaldendum og álagningaraðilanum.

Í frumvarpinu er sem fyrr segir að finna umtalsverðar breytingar á álagningu vörugjalda á einstaka vöruflokka, einkum þá matvæli. Þar er þó einnig að finna tillögur um að vörugjöld verði felld niður í nokkrum tilvikum af öðrum vöruflokkum en matvælum með það að markmiði að skapa aukið samræmi í álagningu gjaldanna. Þessar tillögur er í megindráttum að finna í skýrslu starfshóps sem hafði það hlutverk að fjalla heildstætt um álagningu vörugjalda á aðrar vörur en matvæli. Starfshópurinn lagði meðal annars til að vörugjald yrði fellt niður af smærri raftækjum til heimilisnota, svo sem samlokugrillum og hraðsuðukötlum, til samræmis við raftæki sem gegna svipuðu hlutverki en eru án vörugjalds í dag. Þarna er um að ræða verulega samræmingu á vörugjaldaflokkum þannig að sambærileg tæki beri sambærileg gjöld en ekki sé munur á brauðrist og samlokugrilli eins og verið hefur hingað til.

Jafnframt er lagt til að vörugjöld verði felld niður af varmadælum og öryggisbúnaði ökutækja.

Til samræmingar er einnig lagt til að vörugjöld verði sett á nuddbaðkör og nuddpotta en sambærilegar vörur án nudds bera í öllum tilvikum vörugjald.

Hvað varðar álagningu vörugjalda á matvæli er henni breytt þannig að hún verði í réttu hlutfalli við viðbættan sykur eða ígildi hans í sætuefnum.

Með þessu móti er leitast við að koma á hagrænum hvötum sem ætlað er að beina neyslu í átt til aukinnar hollustu með aukinni gjaldtöku á það efni sem æskilegt er að takmarka neyslu á. Um þetta hefur lengi verið rætt en lítið gert og nú er komin niðurstaða í það mál. Hingað til hefur álagning vörugjalda á matvæli ekki verið nægilega markviss. Gjöldin hafa til dæmis lagst af jafnmiklum þunga á gosdrykki og hreina ávaxtasafa, og sumar vörur með miklum viðbættum sykri hafa ekki borið vörugjald. Þarna hefur verið innbyrðis ósamræmi. Með samþykkt þessa frumvarps munu sykraðar mjólkurvörur og morgunkorn bera vörugjald í hlutfalli við sykurinnihald en það hafa þær ekki gert hingað til. Vörur sem ekki innihalda viðbættan sykur, svo sem hreinir ávaxtasafar og bragðbætt vatn, munu ekki bera vörugjald en það er lagt á þessar vörur nú. Þessar tillögur byggja á rannsóknum sem sýna að margir Íslendingar, og þá sérstaklega ungt fólk, neyta of mikils sykurs miðað við það sem æskilegt er talið. Jafnframt benda rannsóknir til þess að hægt sé að breyta neysluvenjum með hagrænum hvötum. Þörfin er brýn til þess að snúa af þeirri braut að meðal Norðurlandabúa er hæst hlutfall fólks sem þjáist af offitu hér á landi. Þá er tannheilsa íslenskra ungmenna mun lakari en hjá jafnöldrum þeirra annars staðar á Norðurlöndum.

Ein helsta forsenda þess að lagt er til að ekki sé gerður greinarmunur á sætuefni og sykri í álagningu vörugjaldsins er einmitt mikil notkun sætuefnanna í gosdrykkjum en þar er að finna mikilvægan orsakavald tannskemmda og gildir þá einu hvort gosið er með sykri eða sætuefni.

Þær tillögur sem er að finna í þessu frumvarpi eru einungis hluti af aðgerðum stjórnvalda til að hafa áhrif á bætta heilsu landsmanna. Stjórnvöld hafa verk að vinna í að beita jafnframt og samhliða öðrum aðferðum en hinum hagrænu til þess að auka meðvitund fólks um hlut holls mataræðis og aukinnar hreyfingar í þessum efnum.

Auk þeirra ákvæða sem þegar hefur verið gerð grein fyrir er í frumvarpinu kveðið á um að skil á vörugjaldi innlendra framleiðenda matvæla geti farið fram í gegnum kaup á vörugjaldsskyldum aðföngum í stað þess að vörugjald sé lagt á framleiðsluna sjálfa. Þannig geta innlendir framleiðendur losnað við skýrsluskil, rekstur tölvukerfa og annað umstang við skil á gjaldinu. Innflytjendum matvæla er jafnframt gert kleift að tilgreina á tollskýrslu nákvæmt hlutfall viðbætts sykurs eða sætuefnainnihald vöru og greiða gjald í samræmi við það. Þannig er innflytjendum og innlendum framleiðendum gert kleift að skila vörugjaldi í samræmi við hlutfall sykurs eða sætuefna í vörunni.

Frumvarpinu er ætlað að afla ríkissjóði 800–900 millj. kr. í tekjur umfram það sem vörugjöld gera nú og er það í samræmi við tekjuöflunaráform sem kynnt hafa verið í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013. Er þá miðað við að sú aukning komi fram í hærri gjaldtöku á sykruð matvæli.

Lagt er til að frumvarpið taki gildi 1. mars á næsta ári til að gefa aðilum nægan tíma til að undirbúa ýmis tæknileg atriði þannig að framkvæmdin megi heppnast sem best.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari.