141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[21:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég skil hv. þingmann og spurningar hans til mín snúa þær aðallega að því sem ekki er gert í þessari vinnu, þ.e. hvort menn hefðu átt að taka meira inn í þetta, eins og föt, skó og annað slíkt. Það rétt að það er ekki gert. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum auðvitað að reyna að hafa sem mesta verslun hér á landi. Ég er alveg til í einhverja frekari skoðun á því hvernig við getum örvað hana og breytt þeirri staðreynd að 40% af skóm og fatnaði eru keypt erlendis. Ég er ekki viss um að það sé eingöngu vörugjaldið sem hefur áhrif þar, því miður.

Frú forseti. Ég held að séum við komin með mjög góða niðurstöðu vegna þess að um það hefur verið deilt mjög lengi. Við höfum í mörg ár talað um að menn þurfi einhvern veginn að samræma tollaflokka og við gerum það með breytingunum á raftækjum. Eftir þær hættir að vera munur á milli þess hvort menn grilla samlokuna í flötu grilli eða rista hana lóðrétt. Við gerum fleiri mjög mikilvægar breytingar í frumvarpinu.

Ég tel líka að sú leið sem farin er varðandi sykurskattinn og álagninguna á honum sé sú réttlátasta gagnvart innlendri framleiðslu og innflutningi. Ég held að það sé það mikilvægasta í því öllu saman, að finna þarna réttláta leið þar sem eingöngu horft á hlutfall sykurmagns í vörunni. Það er gert þannig að þeir sem nota hana síðan í innlenda framleiðslu taka vörugjöldin með inn í aðföngunum. Það tel ég réttláta niðurstöðu og ég veit að lengi hefur verið kallað eftir þeirri jöfnun á samkeppnisstöðu.