141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[21:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sú staða sem hv. þingmaður lýsir og kallar eftir að við leysum fyrir jólin 2012 er ekkert ný. (Gripið fram í.) Það hafa verið tollar og vörugjöld á öllum þeim vöruflokkum sem hv. þingmaður nefnir svo árum skiptir. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Hans flokksfélagar sem sátu í fjármálaráðuneytinu árum saman gerðu ekkert í því og svo kallar hv. þingmaður eftir að því sé reddað fyrir jól.

Við tökum stórstíg áfangaskref í breytingum á tollakerfinu. Við samræmum til dæmis innan smárra raftækja og innan baðkara, hvort þau erum með nuddkerfum eða ekki. Við afnemum tolla- og vörugjöld á varmadælum, á öryggisbúnaði í bifreið o.s.frv. Hv. þingmaður ætti ekki gera lítið úr því sem er verið að gera.

Sömuleiðis komum við með langþráðar breytingar á vörugjöldum þegar kemur að matvælum með sykurinnihaldi. (Gripið fram í.) Um það hefur verið deilt lengi. Við tökum út vörur sem hafa hingað til borið vörugjöld en eru ekki með sykri og setjum inn aðrar vörur sem eru með sykri en hafa ekki borið vörugjöld. Við erum þar með að samræma innbyrðis og fara réttlátustu leiðina við það sem er að horfa á hlutfallið. Ég held að hv. þingmaður snúi mikið út úr með því að ætla að við séum að setja upp eitthvert þungt og flókið embættismannakerfi í tengslum við þegar menn skilgreina hvað er hvað. (GÞÞ: Svarar ekki spurningunni.) Það er það sem ég er að segja, (GÞÞ: Nei.) að það sé ansi langt seilst í málflutningnum (Gripið fram í.) hjá hv. þingmanni.