141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[21:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að hrósa því sem vel er gert og um það eru nokkur dæmi í þessu frumvarpi sem full ástæða er til að þakka fyrir. Það er jákvætt að verið sé að samræma og lækka gjöld á ákveðnar vörutegundir. Ég tek hins vegar undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni um að auðvitað veldur það vonbrigðum að ekki sé um róttækari uppstokkun að ræða. Hæstv. fjármálaráðherra til upplýsingar erum við auðvitað ekki að tala um að eitthvað sé gert á nokkrum dögum núna í desember 2012 heldur að vekja athygli á því að verkefnið hefur verið fyrir augunum á okkur árum saman, alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir um það. Hæstv. ráðherra hefur átt aðild að ríkisstjórn, eða hennar flokkur, um allmargra ára skeið og það veldur auðvitað vonbrigðum að ekkert hafi verið gert í þessum málum.

Síðustu breytingar sem einhverju skipta á vörugjaldakerfinu áttu sér stað skömmu eftir að núverandi ríkisstjórn tók við völdum sumarið 2009. Hvað var gert þá? Vörugjöld á fjöldamargar vörur voru hækkuð. Farið var í að snúa til baka vörugjaldabreytingu sem Sjálfstæðisflokkur og Samfylking höfðu staðið að skömmu áður. Öllu var snúið til verri vegar og gagnrýnt harkalega og síðan hefur ekkert gerst sem máli skiptir. Því miður, hæstv. forseti.

Þegar talað er um þá breytingu í heild á þeirri forsendu að þarna sé um að ræða jákvætt skref, réttlæti og annað, velti ég fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé þeirrar skoðunar að það sé (Forseti hringir.) réttlætismál að auka heildargjaldtökuna um 800–900 millj. kr. eins og þarna er gert, og hvort það komi ekki fram á öðrum stöðum í þjóðfélaginu, t.d. með hækkun á vísitölu.