141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri þá ráð fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra ætlist til að við metum það svo að það verði engin tekjuaukning fyrir ríkissjóð af þeim breytingum. Ef þetta eru bara umbætur og réttlæti og allt það, er engin tekjuaukning. Það er væntanlega til þess sem leikurinn er gerður, að halda því á sléttu, og ekki verið að auka tekjurnar sem ríkið fær í sinn hlut og neytendur borga. Auðvitað er ekki verið að því. Það er ekki verið að hækka vísitöluna sem meðal annars kemur fram í húsnæðisverðinu í landinu. Er það nokkuð, hæstv. fjármálaráðherra?

Þessi svokallaði sykurskattur, til hvaða fordæma var litið þegar sú skattlagning var ákveðin? Var kannski horft til Danmerkur þar sem skattlagning af því tagi hefur verið við lýði og menn eru í þann veginn að leggja hana niður?