141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra kærlega fyrir greinargerðina fyrir málinu þar sem ég held að margt sé fært til betri vegar í því vörugjaldakerfi sem við höfum búið við. Ég vil líka fá að nota tækifærið og þakka fulltrúum stjórnarandstöðunnar í umræðunni, hv. þm. Birgi Ármannssyni og hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrir jákvæðar undirtektir um margt þó að eðlilega andmæli þeir gjaldahækkunum.

Sú leið sem hér er farin um álagninguna á sykurskattinum er framför frá því sem gert var um áratugaskeið undir forustu allra flokka. Með þessari aðferð er eytt því mikla ósamræmi sem var á ýmsum vörum þar sem mikið sykraðar vörur voru án gjalda en sumar ósykraðar með gjöldum á. Það þjónaði sannarlega ekki þeim markmiðum sem yfirlýst voru með vörugjaldakerfinu sem komið var á fyrir einhverjum áratugum síðan í tíð einhverra stjórnmálaflokka sem þá voru við völd í landinu, sem ég veit ekki einu sinni hverjir voru á þeim tíma.

Eins og nefnt var áðan var það kerfi lagt af í samstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á árinu 2008 þegar menn héldu að þeir hefðu efni á því að hætta þeirri tekjuöflun fyrir ríkissjóð, því að ýmsir gallar eru á þessari skattheimtu. Það er hins vegar deginum ljósara að eftir efnahagshrun getum við ekki lifað með minni tekjustofna fyrir ríkissjóð en voru fyrir hrun, fyrir bóluna í aðdraganda hrunsins, og þess vegna var nauðsynlegt að innleiða á ný þessi vörugjöld. Ég held hins vegar að full ástæða sé til að fara vel og vandlega yfir kerfisbreytinguna sjálfa og skoða hvernig hún kemur út fyrir einstakar vörur. Nefndin áskilur sér auðvitað allan rétt til breytinga á málinu í meðförum þingsins.