141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:22]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað er það meginmarkmið þeirra mála sem hér eru flutt í tengslum við fjárlög að afla ríkissjóði tekna. Manneldissjónarmiðin eru aðeins þáttur málsins og byggja fyrst og fremst á því sjónarmiði að það skjóti nokkuð skökku við að vörur sem almennt eru ekki taldar hollustuvörur njóti sérstakra ívilnana í skattkerfinu og sæti lægri álagningu en aðrar vörur almennt. Ég held að það sé ekkert sérstakt markmið með einhverjum ofursköttum að koma í veg fyrir að maður geti fengið sér kók og prins, það er ekki þannig. Þetta eru ekki hættulegar vörur í þeim skilningi, enda er ekki verið að leggja nein slík gjöld á vörurnar. Það er einfaldlega verið að samræma gjaldtöku og gera, með hætti sem Samtök iðnaðarins lögðu til árið 2009, þá gjaldtöku miklu heildstæðari en áður var. Ég held að almennt fari verslun á sykraðri matvöru fram á Íslandi. Ég held ekki að við leitum mikið til útlanda til að stunda hana.

Hitt getur svo vel verið rétt hjá hv. þingmanni, að með því að afnema ýmsa tolla á vörugjöld megi auka verslun í öðrum verslunargreinum og skapa fleiri störf í tengslum við hana og það er full ástæða til að skoða. Skilvirkasta leiðin í því efni held ég þó að væri einfaldlega, hv. þingmaður, að ganga í Evrópusambandið því þar með falla þessir múrar sjálfkrafa niður gagnvart öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu.