141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Margar atlögur hafa verið gerðar að því að einfalda vörugjaldakerfið. Það er þvílíkur frumskógur að ég hugsa að fáir þekki það, nema kannski þeir sem framkvæma skattlagninguna og það er eins gott að þeir skilji það þá rétt. Hér er gerð tilraun til þess að ná fram einhverri einföldun en menn ætla sér líka að breyta hegðun fólks og það er eitthvað sem ég tel mjög varasamt.

Það má vel vera að fólk borði of mikið af fitu og það getur vel verið að það borði of mikinn sykur og hafi ekki vit fyrir sér í þeim efnum. Ætti að borða minni sykur og minni fitu. En er ekki líka betra að hreyfa sig? Gæti ekki verið að ef þeir sem borða mikið smjör og fitu hreyfa sig nógu mikið sé enginn skaði skeður? (Gripið fram í: Líka. Hreyfir sig …) Sömuleiðis með sykurát, það hefur náttúrlega slæm áhrif á tennurnar en segjum að menn borði sykur og bursti tennurnar vandlega á eftir og hlaupi svo eða hreyfi sig. Þá kann að vera að þeir losni við þau skaðlegu áhrif sem þessu frumvarpi er ætlað að koma í veg fyrir. Þ.e. hæstv. fjármálaráðherra ætlar að hafa vit fyrir því hvað fullorðið fólk er að borða heima hjá sér. Það er forsjárhyggja sem ég er ekki mjög hrifinn af. Ég held að nota eigi skattkerfið til að afla tekna fyrir ríkissjóð þannig að hann geti staðið undir góðu og skilvirku velferðarkerfi, greitt styrki til aldraðra og því um líkt og staðið undir heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Það tel ég vera markmið skattlagningar, en ekki að stýra hegðun fólks, hvernig það borðar eða hvað það gerir.

Þegar farið er í gegnum frumvarpið þá er talað um á bls. 5 að skyr með viðbættum sykri og sætuefni ber 30% skatt og 430 kr. á kíló, en sömuleiðis líka annað skyr. Ég vildi gjarnan fá skýringu á hvort það geti verið rétt, því í greinargerð stendur að það sé einmitt skyr án sykurs sem á að losna við skattinn. Ég tel skyrið vera afskaplega hollt, frú forseti, jafnvel með sykri, ef menn bursta tennurnar og fara að hlaupa á eftir.

Síðan er margt í frumvarpinu sem er mjög undarlegt. Á bls. 3 er talað um að tollskrárnúmer 2924.2960 eigi að bera um 40 þús. kr. skatt á kíló. Ég hefði gaman að vita hvaða efni það er. Það er farið að nálgast eiturlyf. Ég vildi gjarnan fá skýringar á því hvað það er.

Svo er talað um að álagningin verði einföld og gagnsæ. Samt eru þeim sem framleiða vöruna gefnir tveir valkostir, annars vegar að þeir geti notað sykur sem er með sykurskatti til framleiðslunnar og þá þurfa þeir ekki að falla undir skattlagningu á vörunni og hins vegar að varan beri vörugjald, en framleiðendur geti þá dregið frá skattlagningu á sykrinum sem þeir nota. Þarna er verið að flækja kerfið enn frekar og það verður mjög gaman að sjá hvernig þetta verður útfært í smáatriðum. Þetta er um 1. gr.

Svo er það með sætuefnin. Það þarf mun færri grömm af sætuefni en sykri til að ná fram sama sætumagni. Þess vegna á að skattleggja sætuefnin því talið er að þau séu 180–350 sinnum sætari, það er erfitt að ákvarða það með nákvæmum hætti. Nú er spurningin: Af hverju eiga sætuefni að falla undir þetta? Hvað er svona skaðlegt við sætuefni? Ekki skemma þau tennurnar. Nú getur vel verið að einhverjir hafi efasemdir um að þau séu ekki hreinlega skaðleg, ekki heilsusamleg, en það er allt annar handleggur. Það á að banna þau ef kemur í ljós að þau eru einhver veginn skaðleg heilsunni.

Ég ætla ekki að fara mjög djúpt í þetta. Ég hefði gjarnan viljað sjá að menn einfölduðu vörugjaldakerfið allverulega vegna þess að svona flókið kerfi veldur mikilli vinnu hjá atvinnulífinu og hjá eftirlitsaðilum. Möguleikar á svindli, undanskotum og skattsniðgöngu aukast, þannig að ég hefði viljað sjá verulega mikla einföldun á vörugjaldakerfinu. Ég skora á þá aðila sem verða í ríkisstjórn eftir kosningar að þeir taki sér tak og nenni, herra forseti, að fara í gegnum vörugjaldakerfið, setja sig inn í það og einfalda það. Því til þess að geta einfaldað það þurfum við fyrst að skilja það.

Það hefur verið nefnt í mín eyru nokkrum sinnum að þegar menn leggja t.d. grasdúk á fótboltavelli, þá sé á honum mjög hátt vörugjald. Hvers vegna skyldi það nú vera? Það er vegna þess að einu sinni voru framleidd teppi í Álafossi. Til að vernda þá framleiðslu þá voru sett há vörugjöld á teppi, þannig að erfitt yrði að flytja inn teppi í samkeppni. Síðan fór þessi verksmiðja á hausinn eins og kunnugt er og það er langt síðan menn hafa framleitt teppi á Íslandi, en skatturinn situr áfram og leggst meira að segja á teppi sem eru lögð á fótboltavelli.

Ég veit ekki hvað ég á að taka mikið inn á þetta. Ég held að þetta muni flækja framkvæmdina mjög mikið enda er gert ráð fyrir því að ráða fólk í vinnu við þetta. Ég held að árangurinn af því að hækka verð á sykurvörum með tollum, sköttum og vörugjöldum hafi lítil áhrif vegna þess að verðteygnin er ekki svo mikil. Þó að verðið hækki á karamellum og því um líku, segjum að það hækki um 20–30 kr., þá mun það ekki hafa mikil áhrif á neysluna. Fólk langar svo mikið í karamellur, það er vandamálið.

Það er líka til önnur leið og það væri að setja upp eftirlitsvél í íbúðinni minni. Fylgjast bara með því sem ég geri, hvort ég stelist ekki til að fá mér karamellu öðru hverju, sem ég reyndar geri. (Gripið fram í: Stela nógu oft.) Svo er bara að ráða eftirlitsmenn út um allt. Mér finnst að ríkið og hv. þingmenn eigi ekki að hafa vit fyrir fullorðnu fólki. Það er allt í lagi að hafa vit fyrir börnum og sérstaklega börnunum sínum, en að vera að hafa vit fyrir fullorðnu fólki finnst mér ekki vera rétt.

Ég ætla ekki að ljúka þessari ræðu án þess að minna á það sem er jákvætt í frumvarpinu. Það er nefnilega dálítið jákvætt í því. Það er til dæmis verið að fella niður vörugjöld á varmadælum og það tel ég vera jákvætt. Þó ég vilji almennt séð hafa skattkerfin einföld, ég mundi til dæmis vilja hafa virðisaukaskattinn bara eitt þrep. Þá væri öll heila framleiðslan, heilbrigðisþjónustan, ferðaþjónustan, menntakerfið, sjávarútvegurinn, allt heila kerfið undir einni prósentutölu. Hún mætti mín vegna vera 17% eða eitthvað slíkt, eða það sem þarf til að gefa ríkissjóði sömu tekjur. Allar undanþágur burt og þar með öll undanskotin sem eru möguleg í dag. Þetta mundi ég vilja hafa. Svo vildi ég helst að menn tækju sér tak, þ.e. á næsta kjörtímabili, og útrýmdu vörugjaldafrumskóginum sem gefur ríkissjóði mjög litlar tekjur. Nema þá stóru vörugjöldin sem eru á bifreiðum. Þar þyrftu menn hugsanlega að velta fyrir sér hvort ekki sé betra að flytja vörugjald á bifreiðar yfir á notkun á vegum. Vegna þess að há vörugjöld á bifreiðum núna stöðvar fólk í því að kaupa nýjar bifreiðar og stöðvar fólk í að kaupa eyðslugrannar bifreiðar. Það hefur orðið mikil breyting á eyðslu bifreiða undanfarin 10 ár. Floti landsmanna er eldgamall og mjög eyðslufrekur þannig að ég held að menn ættu að skoða að fella niður vörugjöld á bifreiðum og flytja skattlagninguna yfir á notkun á vegum eins og talað hefur verið um. Jafnvel yfir á mæla, en það er eitthvað sem þarf meiri tíma til og kannski meiri vinnusemi hjá þeim sem vinna við lagasetninguna svo við getum tekið okkur tak og komið henni á skikkanlegt form. Ég held að vörugjöld eigi ekki að vera til. Virðisaukaskatturinn á að vera einn og undantekningarlaus. Þá mun ríkissjóður ná markmiðinu sem er að afla tekna fyrir velferðarkerfið og vera ekki að stýra neyslu fólks.

Það sem við gætum hins vegar gert er að upplýsa fólk enn betur um skaðleg áhrif af neyslu þessara og hinna vörutegundanna. Benda fólki alveg sérstaklega á að til að upphefja þau skaðlegu áhrif þá gerir ekkert til að hreyfa sig pínulítið og stunda hlaup eða íþróttir eða eitthvað slíkt. Þannig upphefja menn skaðleg áhrif neyslunnar sem vinstri menn, hv. þingmenn, eru svo uppteknir af að hafa vit fyrir fólki með. Mér finnst ekki rétt að 35 ára gamall þingmaður sé að hafa vit fyrir 50 ára gömlum Íslendingi sem hefur heilmikið vit á því hvernig hann á að hegða sér og hvað hann ætlar að gera. En það er sem sagt eitt jákvætt í frumvarpinu og það eru vörugjöld af varmadælum og slíku sem getið er um að séu tekin út. Svo er eitt sem hv. nefnd þarf að gera, það er að fara í gegnum öll vörugjaldanúmerin og vita hvað er á bak við þau, því ég man eftir því að einu sinni þegar átti að hækka skatta á sykur þá voru gúmmídekk allt í einu komin með.