141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég mun ekki dvelja lengi við umræðu að þessu sinni. Það var samið um að umræðunni mundi ljúka einhvern veginn og að sjálfsögðu ætla ég að standa við það og virða það. Ég vil þó koma á framfæri að mér sýnist að þetta frumvarp, eins og svo mörg önnur sem við höfum verið að ræða, sé til þess fallið að veikja hag heimilanna með því að hækka lánin því eitthvað af þessu fer út í verðlagið o.s.frv. Ég tala ekki um þennan svokallaða sykurskatt sem mun klárlega gera það.

Mér finnst svolítið sérstakt að við skulum fara þá leið núna þegar við höfum nýlegt dæmi frá nágrannaþjóð okkar þar sem hætt er við þennan skatt vegna þess að hann hefur leitt til stjórnsýslukostnaðar sem ekki var fyrirséður og hefur ekki skilað þeim árangri sem hann átti að gera. Þar af leiðandi finnst mér þetta sérkennilegt.

Að sjálfsögðu fer málið sína leið í þinginu en ég reikna ekki með að hægt verði að styðja það frekar en aðrar skattahækkanir vegna þess að við höfum dæmi um að þær skili ekki árangri og muni á endanum fara út í verðlagið og hækka lán heimilanna.

Svo tek ég undir orð hv. þm. Illuga Gunnarssonar um að frumvarpið sé nánast óskiljanlegt. Í það minnsta hefði verið gott að fá betri skýringar á því hvað hækkar eða breytist og hvað ekki. Það er nánast óboðlegt að leggja svona töflur fyrir þingheim. Við kunnum tollskrárnúmerin ekki utanbókar, í það minnsta hugsa ég að fáir geri það.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég vildi bara koma því á framfæri að mér líst illa á þetta frumvarpið, eins og flest önnur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram síðustu daga.