141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

búnaðarlög og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

448. mál
[10:37]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé ekki rétt lýsing á því að gæðastýringarkerfið hafi verið tekið upp ofan frá. Ég veit ekki betur en að bændur sjálfir séu aðalgerendurnir í því og að mikill stuðningur hafi verið við það í þeirra röðum að bæta skýrsluhald og taka tillit til beitarlands og annarra slíkra hluta sem þessu tengjast. Það er til mikilla bóta að sem flestir bændur geri það. Hluti þeirra gerði það að verulegu leyti áður, þeir sem voru í fjárræktarfélögum voru að mestu leyti með það utanumhald utan um framleiðslu sína sem fólgin er í þeim hluta gæðastýringarkerfisins, en það hefur leitt til þess að langstærstur hluti bænda er nú í kerfinu og er það til bóta.

Varðandi bætur vegna óveðurstjónsins er farin hér sambærileg leið og gerð var eftir eldgosið í Grímsvötnum, enda felur það í sér að tilteknum ákvæðum laganna um ásetningshlutfall er þá vikið til hliðar tímabundið í þeim skilningi að menn halda óskertum beingreiðslum og gæðastýringarálagi þó að ásetningshlutfallið fari niður fyrir þau 80% sem ella mundu byrja að skerða greiðslurnar.

Það gefur augaleið að þegar bændur verða fyrir því að missa verulegan hluta bústofnsins og hafa ekki aðstöðu til að kaupa eða setja á fé þannig að þeir nái ásetningshlutfallinu, til dæmis af óviðráðanlegum ástæðum vegna náttúruhamfara eða hamfaraveðurs af þessu tagi, væri ekki sanngjarnt að þeir yrðu fyrir viðbótarfjárhagstjóni vegna þess að beingreiðslur skertust þegar tómlegt væri í fjárhúsum þeirra fyrstu einn, tvo veturna eftir slíkt ástand. Þar af leiðandi er vikið til hliðar þessum viðmiðunarmörkum með bráðabirgðaákvæðum þannig að menn missa ekki tekna í gegnum beingreiðslu- og gæðastýringarálagskerfið þennan tíma.