141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

búnaðarlög og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

448. mál
[10:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og fleiri vinstri menn og verkalýðsrekendur blandar hæstv. ráðherra saman bændum og Bændasamtökum. Það er eitthvað allt annað. Bændasamtökin eru lögbundin samtök sem bændum er gert að greiða til með lögum þannig að þeir hafa ekkert val. Til þess að auka sitt veldi og starf hafa Bændasamtökin komið á leiðbeiningarmiðstöð o.s.frv. í þessu heilmikið kerfi þar sem völd þeirra vaxa og vaxa og þurfa bændur að sjálfsögðu borga það ásamt skattgreiðendum.

Þeir sem ekki eru í gæðastýringarkerfinu, sem eru þó nokkrir bændur, og sætta sig við 25% lægri beingreiðslur af þeim sökum, fá það ekki bætt þegar bústofninn minnkar ef þeir fara niður fyrir þessi 80% sem er framleiðsluskylda. Það er framleiðsluskylda bænda í búvörusamningnum, þeir eru skyldaðir til að framleiða til að fá beingreiðslur. Ef þeir fara niður fyrir þessi 80% vegna þess að þeir missa féð og eru ekki í gæðastýringarkerfinu fá þeir tjónið ekki bætt, þá missa þeir hluta ef beingreiðslunum. Ég skil það alla vega þannig.

Ég vil fá hæstv. ráðherra til að lýsa því fyrir mér að þeir bændur sem ekki eru í kerfinu og vildu það ekki af einhverjum ástæðum, alls konar ástæðum, töldu sig vera fullfæra um að ákveða hvar þeir mundu beita fé sínu, hvernig þeir mundu rækta það, hvernig þeir mundu skrá það og hvernig þeir mundu muna það, ef þeir hafa ekki fé til að fylla upp í kvótann, þessa 80% framleiðslu sem þeir verða að leggja fram, eru þá beingreiðslurnar skertar?