141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

búnaðarlög og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

448. mál
[10:41]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ráðstöfunin tryggir bara að bændurnir eru nákvæmlega eins settir og þeir voru fyrir og ásetningshlutfallið kemur þá ekki við sögu þar. (Gripið fram í.) Hafi menn ekki fengið gæðastýringarálag fá þeir það að sjálfsögðu ekki hvort sem er, en þetta fyrirkomulag tryggir öllum bændum óskertar beingreiðslur sem urðu fyrir tjóninu óháð því hvort þeir eru í gæðastýringarkerfinu eða ekki.

Varðandi þessi mál að öðru leyti vil ég benda hv. þingmanni á að Bændasamtökin sjálf eru í þessu tilviki frumkvæðisaðilar að breytingum á leiðbeiningarþjónustunni, að sameina hana á landsvísu í því skyni að hagræða. Í það heila tekið held ég að samstarfið hafi verið farsælt. Bændur taka afstöðu til samninganna í kosningum og yfirgnæfandi meiri hluti þeirra samþykkir þær þannig að þá myndast grundvöllur undir skipulagið með kosningum meðal bænda. Ef almenn andstaða væri við fyrirkomulagið yrðu þeir samningar væntanlega felldir í kosningunum, en svo er nú ekki. Þvert á móti er það samþykkt af yfirgnæfandi meiri hluta þeirra það ég best veit.

Ég tel því að áhyggjur hv. þingmanns að því leyti séu óþarfar. Ég held að hér sé verið að bregðast eðlilega við þeim hamförum sem urðu í óveðrinu í september og ég hef ekki heyrt gagnrýni úr röðum bænda (PHB: Bændasamtakanna?) varðandi að það sé gert með þessum hætti. Það geta nú fleiri talað við almenna bændur í landinu en hv. þm. Pétur Blöndal og hann þarf ekki að vera endalaust með þetta tuð um bændaforustuna eins og allt gangi út á að þjónka henni. Við erum að tala um framleiðslugrundvöll landbúnaðarins og við höfum talað við hátt á þriðja hundrað bændur sem urðu fyrir miklu tjóni í haust. Ég geri ekki ráð fyrir því að hv. þm. Pétur Blöndal (Forseti hringir.) telji það eftir sér að við reynum að aðstoða þá.