141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

búnaðarlög og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

448. mál
[10:56]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að lengja umræðuna við 1. umr. Ég tel að málið sé jákvætt. Varðandi breytinguna á leiðbeiningarþjónustunni er það mál sem hefur staðið til lengi. Ég held að það sé til verulegra bóta og það muni þegar fram líða stundir verða hvati til þess að sækja sér nýja þekkingu og menn muni leita eftir því, eins og oft er þegar leiðbeiningarþjónusta eða ráðgjafarþjónusta þarf að standa betur undir sjálfri sér, ef við getum orðað það þannig, að þá verði það til þess að slík þekking verði alltaf eins og best er á kosið. Við þekkjum það að á liðnum árum hafa margir bændur og sérstaklega ákveðnar greinar bænda leitað eftir nýjustu þekkingu erlendis þar sem hún hefur kannski ekki verið til staðar hjá búnaðarsamböndunum í sama mæli. Ég held því að sá þáttur sé afar jákvæður. Það frumkvæði sem Bændasamtökin og önnur samtök bænda hafa staðið fyrir til að koma því á er fagnaðarefni og gott að framkvæmdarvaldið skuli koma þar inn með þann ramma sem þarf að breyta í lagaumgjörðinni.

Varðandi síðan þann þátt sem snýr að samningum við félögin um stuðning við landbúnað er rétt að rifja það upp að í upphafi kreppunnar voru það Bændasamtökin sem komu til ríkisins og voru tilbúin til að gera samninga um að taka á sig ákveðna skerðingu í upphafi. Þau tóku þannig mjög ábyrga afstöðu til þess að allir þyrftu að taka sameiginlega á þeim vanda sem fyrir var. Ég held að það hafi verið skynsamleg ráðstöfun sem Bændasamtökin og framkvæmdarvaldið á þeim tíma gerði með því að framlengja samningana sem hér eru síðan gerðir aftur með stuðningi við sauðfjárframleiðslu, nautgriparækt og í garðyrkjunni. Ég held að það sé hið jákvæðasta mál og vildi koma hingað upp til að rifja aðeins upp forsöguna í því.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í einn þátt. Í breytingunni sem nú er gerð á starfsskilyrðum þessara búgreina stendur í lokamálsgrein samningsins eða þess sem menn rita undir, með leyfi forseta:

„Samningur þessi er gerður með fyrirvara um hugsanlegar breytingar á þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands sem kunna að leiða af niðurstöðum samningaviðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.“

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hverju það sæti að slík setning sé sett inn í þennan samning. Nú hefur hæstv. ráðherra, formaður Vinstri grænna, margoft lýst því yfir að hann sé andstæðingur Evrópusambandsins og muni ekki fara þangað inn og ekki þarf að fjölyrða um afstöðu Bændasamtakanna til slíks máls. Hér eru tveir aðilar að undirrita samning þar sem báðir eru á móti því að fara inn í Evrópusambandið. Þetta er vissulega framlenging til ársins 2016 og 2017. Mikill meiri hluti fólks í landinu er andsnúinn því að ganga inn í Evrópusambandið og auk þess er orðinn meiri hluti fyrir því að draga umsóknina til baka. Því finnst mér þessi setning vera svolítið sérkennileg, að menn skuli setja það inn í samninga milli tveggja aðila á Íslandi, framkvæmdarvaldsins og samtaka atvinnurekenda, að samningurinn sé gerður með fyrirvara um það að hugsanlega verði Ísland komið inn í Evrópusambandið. Mér finnst þetta eiginlega alveg óskiljanlegt og bið hæstv. ráðherra að koma hingað upp og skýra þennan lið samningsins. En ég vil enda á því, frú forseti, að lýsa yfir ánægju minni með frumvarpið að öðru leyti.