141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[11:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum heyrt þessi orð áður frá hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni að einhver ákveðin ríkisstofnun hafi náð hámarki sínu, að rekstrarforsendur hafi náð hámarki o.s.frv. Er þar helst að minnast embættis umboðsmanns skuldara. Það átti strax að fara að draga úr umfangi þess embættis á þessu ári, en sífellt er aukið og aukið í þessar stofnanir, m.a. embætti umboðsmanns skuldara sem var sett á fót þegar þessi ríkisstjórn tók við.

Gefin eru sömu loforð um Fjármálaeftirlitið, að reksturinn sé að ná hámarki á þessu og næsta ári, en ég sé ekki von til þess miðað við þetta frumvarp. Þessar opinberu stofnanir og eftirlitsstofnanir virka orðið eins og ríki í ríkinu sem kallar sífellt á meira fjármagn til að standa undir rekstrinum.

Nú er ég ekki að gagnrýna þessa stofnun sérstaklega og ég fullyrði að hún sinnir sínu lögbundna hlutverki, en með því að koma hér upp vil ég benda á það gríðarlega fjármagn sem fer til hennar og að jafnvel sé víða pottur brotinn og gæti verið hægt að hagræða á ýmsum stöðum.

Þá langar mig til að spyrja um þann IPA-styrk sem Fjármálaeftirlitið fær, en ríkið þarf að koma með mótframlag upp á 122 milljónir: Hvaða umbótaverkefni eru það innan Fjármálaeftirlitsins sem þessum IPA-styrk og mótframlagi ríkisins er ætlað að uppfylla?