141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[11:21]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Varðandi rekstrarumfangið minni ég aftur á það sem ég fór yfir í framsöguræðu minni að það er mat samráðsnefndar hinna eftirlitsskyldu aðila, og það eru jú þeir sem borga reikninginn, að rekstraráætlunin teljist raunhæf. Nú staðnæmist reksturinn í um það bil 120 starfsmönnum í stað 140, eins og áður var reiknað með þegar mest yrði. Rekstrarumfangið verður nokkurn veginn í jafnvægi árin 2012 og 2013 en fer svo væntanlega minnkandi eftir það.

Ég held að samráðsnefndin með fulltrúum hinna eftirlitsskyldu aðila sem borga reikninginn sé ágætur vegvísir um að menn séu búnir að lenda málinu á þeim slóðum sem greiðandinn, hinir eftirlitsskyldu aðilar, telur ásættanlegar og raunhæfar.

Varðandi umbótaverkefnin í FME var farið í úttekt á starfseminni af frönskum aðilum, hverra nöfn ég man ekki nákvæmlega núna, sem skiluðu skýrslu og ábendingum. Það hefur verið ákveðið leiðarljós síðan að vinna að umbótum og úrbótum innan stofnunarinnar á grundvelli þeirrar ráðgjafar. Menn hafa sett sér metnaðarfull markmið um að uppfylla allar kröfur og geta hakað við á listanum um hinar alþjóðlegu reglur sem Fjármálaeftirlitinu ber að reyna að mæta. Það miðar vel í þeim efnum og sárafátt sem út af stendur. Settir hafa verið fjármunir í það umbótastarf og unnið að þeirri vinnu, samhliða hinum hefðbundnu verkefnum og þeim óhefðbundnu sem Fjármálaeftirlitið hefur haft með höndum að undanförnu.