141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[11:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að fara í andsvar, hafði beðið um andsvar við hæstv. ráðherra.

(Forseti (ÁRJ): Nei, það var búið, andsvörum var lokið. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður hefur orðið. )

Virðulegi forseti, ég bað um andsvar og ég fæ það ekki, en gögnin mín eru annars staðar.

(Forseti (ÁRJ): Það fór fram hjá forseta, (Gripið fram í.) en andsvörum var lokið. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður hefur orðið í ræðu. )

Ég þakka fyrir góða þjónustu, vonandi eru þetta gögnin sem ég ætlaði að hafa. (Gripið fram í: … mynda nýtt bandalag hérna.)

Virðulegi forseti. Helstu Machiavelliar þingsins draga hinar ýmsu ályktanir af minnstu hlutum. En ég ætlaði að vísu að spyrja hæstv. ráðherra um nokkur mál sem ég ætlaði að fara yfir, ég vonast til þess að hann svari mér, helst í andsvari. Það vekur náttúrlega athygli hvað Fjármálaeftirlitið er afskaplega stórt, sama hvaða mælikvarða er miðað við, og það er enn að stækka. Þegar litið er á minnkunina á milli ára stafar hún fyrst og fremst af því að verið er að draga úr eignakaupum. Það sést vel, virðulegi forseti, á bls. 30 að það er sá liður sem minnkar mest miðað við áætlun 2013. En hlutir eins og laun og starfsmannatengdur kostnaður, úrskurðarnefndir, skrifstofu- og stjórnarkostnaður og ferða- og starfstengdur kostnaður hækka mjög og aðkeypt sérfræðiþjónusta þó mest af öllu, hún er núna 180 milljónir.

Í fyrra fengum við mjög harða gagnrýni frá fjárlagaskrifstofunni á rekstur þessarar stofnunar. Þar vöktu athygli hlutir sem maður hafði aldrei séð í opinberum stofnunum áður, t.d. gjafir og risna til starfsmanna sem voru, ef því er deilt niður, um 55 þús. kr. á hvern starfsmann Fjármálaeftirlitsins. Ég vona að menn hafi hætt slíku. Þetta eru auðvitað litlu tölurnar, en það breytir því ekki að þetta er ekki í samræmi við það sem þekkist hjá opinberum stofnunum.

Til að setja þetta í eitthvert samhengi var stærð íslenska bankakerfisins í fyrra — og hlutföllin eru væntanlega svipuð í ár — um 8% af danska bankakerfinu, en íslenska fjármálaeftirlitið um 43% af því danska. Nú mundi maður ætla að við hefðum fengið þá hluti sem okkur hefur fundist vanta eins og t.d. neytendaeftirlit, eftirlit með því sem snýr að neytendum á fjármálamarkaði. Það hefur sárlega vantað, en neytendavernd er í afskaplega litlum metum hjá eftirlitsstofnunum á Íslandi og stjórnvöldum á Íslandi. Á þessu kjörtímabili, þrátt fyrir þessar háu fjárhæðir, hefur ekkert lagast í því efni svo heitið geti. Enn eru ekki komnar tillögur frá stjórnvöldum um neytendavernd á fjármálamarkaði, þ.e. að hafa alla neytendavernd á einum stað og eins og við viljum hafa hana og gerist í öðrum löndum.

Virðulegi forseti. Ég vona að hæstv. ráðherra sé að fylgjast með og komi hér upp og útskýri fyrir okkur hvernig það getur verið að eftir allan þennan tíma, heilt kjörtímabil, séu ekki enn þá komnar tillögur um það hvernig sé best að haga neytendavernd í eftirlitsstofnunum. Sú vernd er enn á nokkrum stöðum, t.d. hvað varðar gengislánin. Það hefur aldrei verið upplýst hvernig í ósköpunum allir bankarnir gátu komist að sömu niðurstöðu um gengislánin, gengislánaútreikningana sem voru rangir og Hæstiréttur dæmdi síðan ólöglega, og hvernig FME gat samþykkt það. Útreikningarnir komu einstaklega illa út fyrir íslenska neytendur. [Kliður í þingsal.]

Virðulegi forseti. Það er svo mikið skvaldur hérna að maður heyrir ekki í sjálfum sér, ég veit ekki hvort einhver heyrir í mér. (Utanrrh.: Ég hlusta gaumgæfilega á þessa góðu ræðu.) (Forseti hringir.)

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn og aðra um að hafa hljóð í salnum á meðan hv. þingmaður talar.)

Stóra málið er að neytendavernd á fjármálamarkaði er ekki sinnt þrátt fyrir ítrekaðar óskir og beiðnir um það í langan tíma, en þó sérstaklega eftir bankahrun. Við höfum ekki séð neinar tillögur um það og ekki séð neitt frumkvæði í þá átt, hvorki hjá langstærstu eftirlitsstofnuninni né stjórnvöldum, sem skiptir máli og miðar að því að laga neytendavernd á íslenskum fjármálamarkaði. Það er óskiljanlegt og mér finnst að hæstv. ráðherra eigi að gefa okkur ástæðuna fyrir því. Núna er of seint í rassinn gripið og augljóst að þessi ríkisstjórn mun ekki gera þetta og við hljótum að spyrja af hverju. Við höfum talað um skuldamál heimilanna og framgöngu fjármálafyrirtækjanna gagnvart einstaklingum allt þetta kjörtímabil. Við erum með mjög stórt Fjármálaeftirlit, en það sinnir þessu ekki. Það eru engar tillögur á borðinu um hvernig eigi að gera þetta.

Síðan er annað, virðulegi forseti, að Fjármálaeftirlitið á lögum samkvæmt að hafa eftirlit með störfum stjórnarmanna í fjármálafyrirtækjum, svo segir í 55. gr. í lögum um fjármálafyrirtæki. Einnig ættu menn að vera meðvitaðir um að þeir einstaklingar sem starfað hafa í skilanefndum og slitastjórnum hafa gegnt störfum sem stjórnarmenn í fjármálafyrirtækjum. Rekstrarleyfi voru fyrir þrotabúum gömlu bankanna sem fjármálafyrirtækja fram á lok árs 2011, starfsleyfi voru að vísu dregin til baka um mitt ár fyrir Glitni og Kaupþing 19. júlí 2011, en 15. september fyrir Landsbankann. Þá voru starfsleyfin afturkölluð. Fram að þeim tíma höfðu þessir aðilar stöðu stjórnarmanna fjármálafyrirtækja og það liggur fyrir að FME átti að hafa eftirlit með þeim lögum samkvæmt. En síðan, virðulegi forseti, var bætt við ákvæði í lög um fjármálafyrirtæki sem tók gildi í júní 2011, sem segir að Fjármálaeftirlitið eigi að hafa sérstakt eftirlit með starfsemi slitastjórna. Það er því alveg sama hvernig við lítum á þetta, hvort við lítum á lögin eins og þau eru eða voru, að þeir sem voru í slitastjórnum og skilanefndum þrotabúa gömlu bankana höfðu stöðu stjórnarmanna í fjármálafyrirtækjum og Fjármálaeftirlitið á að hafa eftirlit með þeim.

Í ofanálag rökstuddu ráðherrar hundruð milljóna kr. hækkun, nánar 548 millj. kr., árið 2011 með því að verið væri að fela Fjármálaeftirlitinu ný verkefni. Það var að vísu ekki rétt því að það hafði þessi verkefni áður, en þetta var röksemd ráðherra. Ég spyr því, og fer fram á að hæstv. ráðherra svari: Af hverju hefur Fjármálaeftirlitið ekki haft eftirlit með slitastjórnum? Það á að gera það með nákvæmlega sama hætti og með stjórnarmönnum hjá fjármálafyrirtækjum. Mjög mikið eftirlit er haft með stjórnarmönnum fjármálafyrirtækja, t.d. hvort þeir hafi viðskipti við eigin félög. [Kliður í þingsal.] Nákvæmlega það sama á við um stjórnarmenn í slitastjórnum.

Hæstv. ríkisstjórn hefur rökstutt þetta 550 millj. kr. aukaframlag til Fjármálaeftirlitsins þannig að nota ætti það til að sinna þessu lögbundna verkefni. Ég fer fram á að hæstv. ráðherra svari því af hverju þetta eftirlit er ekki framkvæmt. Ég held að ég hafi ekki séð eins mikla aukningu fjárheimilda hjá neinni ríkisstofnun eins og hjá Fjármálaeftirlitinu, fyrir utan kannski umboðsmann skuldara og við getum kannski nefnt nokkrar fleiri. Það gengur ekki að bera fyrir sig fjárskort. Ef við gefum okkur að Fjármálaeftirlitið þurfi að vera svona stórt, sem það er auðvitað á alla mælikvarða, er óskiljanlegt að neytendaverndinni sé ekki sinnt. Þrátt fyrir stærðina vantar mjög mikilvæga þætti. Það er einnig óskiljanlegt af hverju ráðherra hefur ekki beitt sér fyrir þessu þannig að við sjáum nú í lok kjörtímabilsins það sem við hefðum átt að sjá í byrjun; að ljóst væri hvar neytendaverndin lægi og að þessar eftirlitsstofnanir eða hluti þeirra, hvernig sem menn vilja haga því, gætu sinnt henni

Núna er neytendaverndin hjá Neytendastofu, eitthvað er hjá Fjármálaeftirlitinu og fleiri aðilum. Hún er ekki aðeins hjá mörgum eftirlitsstofnunum heldur heyrir undir mörg ráðuneyti. Í öllum hræringunum í Stjórnarráðinu fram og til baka hefur þetta verið á þeytingi eins og svo margt annað. Hæstv. ráðherra verður að útskýra þetta. Þetta er óskiljanlegt, miðað við ástandið í þjóðfélaginu og þá umræðu sem hefur verið. Það verður að útskýra þetta. Það vantar málefnalegar ástæður fyrir því af hverju í ósköpunum ekki hefur verið lögð áhersla á neytendavernd á fjármálamarkaði.

Menn geta ekki sagt: Við höfum ekki sett fjármagn í eftirlitið. Það stenst ekki. Menn geta ekki sagt: Við höfum ekkert verið að skoða neytendavernd varðandi Stjórnarráðið eða eftirlitsstofnanir eða slíkt. Það stenst ekki, það hefur verið gert. En af hverju í ósköpunum er ástandið svona? Við horfum upp á dæmin hvern einasta dag. Fólk kemur til þingmanna, leitar til fjölmiðla þar sem það hefur ekki aðrar leiðir, út af framgangi hinna ýmsu stofnana. Það er alveg sama hvaða sérfræðingur hefur komið fyrir hv. viðskiptanefnd eða efnahags- og viðskiptanefnd, enginn sem hefur rætt þetta hefur ekki verið sammála því að skortur á neytendavernd sé gríðarleg brotalöm í kerfinu. Það er því ekki fræðilegur möguleiki að þessir hlutir hafi getað farið fram hjá stjórnvöldum, það er fullkomlega ómögulegt. Því hlýtur maður að spyrja: Af hverju er ekki lögð áhersla á neytendaverndina? Og af hverju er staðan enn þannig að neytendaverndin er ekki á einum stað? Enn eru stofnanir að diskútera hvað eigi að vera hjá þeim og hvað eigi að vera annars staðar.

Síðan er hitt að hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon hefur haft uppi mjög stór orð um laun slitastjórnarmanna og hann sagðist ætla að lækka þau. Eftir því sem ég best veit var tímakaupið þá um 16 þús. kr. þegar hæstv. ráðherra var nóg boðið og talaði um að þetta væru dæmalaust há laun. Hann benti á það sjálfur að hann hefði tæki til þess, með því að koma ábendingum til Seðlabankans eða hugsanlega FME. Seðlabankinn er kröfuhafi og ríkið eftir því sem ég best veit, þannig að þeir geta í það minnsta komið ábendingum til skila. Svo á FME að hafa eftirlit með slitastjórnum og hvernig viðskiptum er háttað á milli slitastjórnarmanna og þeirra eigin fyrirtækja.

Hæstv. ráðherra hafði uppi stór orð um þetta 2010 og sagðist ætla að beita sér fyrir lækkun. Það er komið í ljós að hann hefur ekki gert það. Og maður hlýtur að spyrja sig: Af hverju var það ekki gert? Af hverju, virðulegi forseti, hefur Fjármálaeftirlitið ekki haft eftirlit með slitastjórnum eins og því ber og hefur borið samkvæmt lögum allt kjörtímabilið?

Virðulegi forseti. Ég fer fram á að fá svör við þessum spurningum hjá hæstv. ráðherra og þegar þau eru komin getum við haldið áfram að spjalla um þetta.