141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[11:58]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Ég hef nokkrar athugasemdir við frumvarpið. Fyrst er það almennt, ég er þeirrar skoðunar að sú útþensla sem verið hefur á Fjármálaeftirlitinu undanfarin ár, sérstaklega í fyrra og á þessu ári, stuðli ekki endilega að bættum eða auknum fjármálastöðugleika eða að eftirlitið vaxi í hlutfalli við fjölda starfsmanna. Bætt var við gríðarlega miklum fjölda starfsmanna vegna hrunsins en nú fækkar málum sem tengd eru hruninu og fá mál eru í rannsókn, þau eru yfirleitt komin fyrir dómstóla eða eru að fara fyrir dómstóla. Spurningin er hvort halda eigi í þau 17 stöðugildi sem tengd eru hruninu, að það sé kannski vel í lagt.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson minntist á það áðan að verið sé að breyta álagningu á lífeyrissjóði. Lífeyrissjóðir stunda vissulega fjármálastarfsemi en spurningin er hvort rétt sé að hækka þegar íþyngjandi gjöld vegna þess að það kemur bara beint niður á lífeyrisréttindum framtíðarinnar og allur kostnaður leiðir óhjákvæmilega til lægri ávöxtunar.

Ef litið er yfir rekstrarkostnaðinn er ljóst að laun og starfsmannatengdur kostnaður mun hækka á milli ára, sem er náttúrlega aðalkostnaðurinn, 4%. Aftur á móti munu eignakaup dragast mikið saman, fara úr rúmum 100 milljónum í um 20 milljónir. Líklegt er að það sé vegna flutninga Fjármálaeftirlitsins og fjárfestinga í tölvukerfum og öðru slíku, það er náttúrlega kostnaður sem ekki þarf að fara í aftur.

Húsnæðiskostnaður hefur aukist um 13% við það að flytja í nýtt húsnæði, en ég tel að við séum ekki alveg á réttri leið að leggja svo mikla áherslu á eftirlitshlutverkið í þjóðfélaginu. Það gildir almennt meðan við erum að skera niður á öðrum sviðum. Fyrir hrun sinntu í kringum 40 starfsmenn bankakerfi sem var margfalt stærra og margfalt flóknara en bankakerfið er í dag. Það hvarflar óneitanlega að manni að ansi vel sé lagt í hér. Vissulega var hægt að gera athugasemdir við starfsemi Fjármálaeftirlitsins fyrir hrun en ég held að athugasemdirnar hafi ekki lotið að því að fjölga þyrfti starfsmönnum um 80, alls ekki.

Síðan eru hérna umbótaverkefni sem Fjármálaeftirlitið segir að byggi á skýrslu franska sérfræðingsins Pierre-Yves Thoravals. Þau umbótaverkefni eiga að stuðla að því að Fjármálaeftirlitið geti uppfyllt alþjóðlega staðla hvað varðar kjarnareglur um árangursríkt bankaeftirlit. Ég hef marglýst því í ræðustóli og hef skrifað um það að bankaeftirlitsstarfsemi fjármálaeftirlits eigi að vera aðskilin eða eigi að vera í Seðlabankanum og tilheyra þeim deildum Seðlabankans sem fylgjast með fjármálastöðugleika. Ég hef haldið því fram alveg frá byrjun árs 2006 og lagði það m.a. fram í skýrslu sem ég gerði með Frederic Mishkin prófessor, sem sumir hafa haldið á lofti sem mikilli blessun yfir bankakerfið þegar hið rétta var að þar var verið að benda á hluti sem færa mætti til betri vegar til þess að styrkja fjármálastöðugleika í landinu. Ég tek nú svo sem ekki mikið mark á þeirri gagnrýni, hún var nú sett fram í pólitískum tilgangi.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að Fjármálaeftirlitið sé á rangri leið með þeirri umbreytingu sem þar á sér stað. Kannski er hún á réttri leið miðað við þær forsendur sem þeir gefa sér, en ekki miðað við það sem ég held að sé heilbrigðast fyrir fjármálakerfið á Íslandi og fyrir fjármálastöðugleika, ég held að þeir séu á rangri leið.

Ef ég vík aftur að umbótaverkefnunum er þar gert ráð fyrir að þau séu fjármögnuð fyrir IPA-styrki. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem koma til vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu og aðlögun íslensks reglugerðarumhverfis og eftirlitsumhverfis að eftirlitshlutverki Evrópusambandsins. Gríðarlega mikið hefur gerst innan Evrópusambandsins frá 2011 þegar þessi áætlun var sett í gang í Fjármálaeftirlitinu. Nú er talað um bankabandalag innan Evrópusambandsins þar sem eru sameiginlegar eftirlitsstofnanir og ekki er hægt að sjá að Ísland geti verið aðili að því. Ég varpa þeirri spurningu til hæstv. atvinnuvegaráðherra, sem er yfirmaður Fjármálaeftirlitsins, hvort það geti verið að hér sé unnið eftir gömlum hugmyndum, því að skýrsla Pierre-Yves Thoravals, franska sérfræðingsins, miðar við einhvern raunveruleika í Evrópu árið 2010 eða í byrjun árs 2011. En nú hefur orðið gjörbreyting þar sem talað er um bankabandalag innan Evrópusambandsins sem ekki er augljóst að Íslendingar eigi aðild að eða muni eiga aðild að þar sem við erum ekki aðilar að Evrópusambandinu. Ef vilji hæstv. atvinnuvegaráðherra nær fram að ganga göngum við sennilega ekki í Evrópusambandið eða þá að við göngum í Evrópusambandið. Ég segi það af því að það er óklárt hvað hann vill.

Það vildi ég segja um frumvarpið, ég vildi vara við þeirri útþenslustarfsemi sem á sér stað í eftirlitsiðnaðinum á Íslandi.