141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[12:07]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi það sem hv. síðasti ræðumaður nefndi vissi ég nú ekki til þess að það væri sérstaklega óklárt hver afstaða mín væri til aðildar að Evrópusambandinu. Ég er andvígur því að Ísland gangi í Evrópusambandið og tel það ekki þjóna hagsmunum okkar best. Við erum hins vegar aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og þar af leiðandi varðar það okkur miklu hvernig regluverkið er sem við tökum upp í gegnum það og þurfum að aðlaga okkur að. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir að það er mikið að gerast í þeim efnum í Evrópu sem við þurfum að takast á við og mæta. Það kann að vera vandasamt, ekki síst varðandi það hvað stjórnarskrá okkar heimilar og heimilar ekki í þeim efnum.

Eðlilega hafa orðið hér talsverðar umræður almennt um starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Það er ekkert undan því að kvarta nema síður sé þó að við séum fyrst og fremst að ræða álagningu eftirlitsgjaldanna fyrir næsta ár. Ég bendi mönnum á bls. 36 í frumvarpinu þar sem fjallað er um breytt stjórnskipulag og verkefni Fjármálaeftirlitsins eins og þau eru teiknuð upp í dag í viðauka með rekstraráætlun fyrir árið 2013. Þar kemur skýrt fram að Fjármálaeftirlitið hefur að sjálfsögðu eftirlit með slitastjórnum eða fjármálafyrirtækjum í slitameðferð. Það fellur undir eftirlitssvið stofnunarinnar. Eins og dregið er upp í skipuriti er meginviðfangsefnum skipt á þrjú svið, þ.e. vettvangsathuganir, eftirlit og greiningar. Eftirlitshlutinn, sem er auðvitað viðamestur, hefur þær skyldur að hafa reglubundið eftirlit með fjármálafyrirtækjum, vátryggingafélögum, lífeyrissjóðum og öðrum þátttakendum á fjármálamarkaði og öllum eftirlitsskyldum aðilum í samræmi við lög og reglur sem þar um gilda. Það felur m.a. í sér mat á hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra eftirlitsskyldra aðila. Það felur í sér að sinna neytendamálum eins og fram kemur á bls. 37 í tengslum við eftirlit með heilbrigðum og eðlilegum viðskiptaháttum. Það hefur Fjármálaeftirlitið sjálft útlistað hvernig það lítur á eftirlitsskyldur sínar í þessum efnum.

Ég er að sjálfsögðu sammála því að ýmsar brotalamir voru í þessum efnum hér á árum áður, ég held að það þurfi ekki að deila um það. (Gripið fram í.) Hér hafa hv. þingmenn nefnt ýmislegt í þeim efnum, eins og ólögleg gjaldeyrislán og húsnæðisbóluna sem hv. þm. Pétur Blöndal og fleiri nefndu. Þörf er fyrir að styrkja neytendavernd og gera neytendasjónarmiðunum hærra undir höfði með því að styrkja löggjöf um neytendalán og hlutverk Neytendastofu þar í. En ég held að það sé alveg ljóst að jafnvel þótt neytendaverndin sem slík sé sérstakt viðfangsefni þeirrar stofnunar verður Fjármálaeftirlitið líka alltaf að hafa þau mál undir í sínum störfum. Ég held að annað sé alveg óhugsandi en að sjálft Fjármálaeftirlitið sé líka með neytendamálin í gegnum það að hafa eftirlit með viðskiptaháttum, að þeir séu heilbrigðir og eðlilegir o.s.frv. eins og þarna kemur fram.

Á töflu á bls. 46 í greinargerð með frumvarpinu eða fylgiskjölum kemur sömuleiðis fram fjöldi eftirlitsskyldra aðila eins og þeir stóðu núna á miðju ári. Þar eru taldar upp 11 slitastjórnir og ekki þarf að deila um að þær eru undir sem eftirlitsskyldir aðilar, samanber bókhald Fjármálaeftirlitsins sjálfs um fjölda eftirlitsskyldra aðila af mismunandi toga. Fjórir viðskiptabankar, tíu sparisjóðir, sex lánafyrirtæki, ein innlánsdeild samvinnufélaga o.s.frv., og næstneðst eru taldar upp þær 11 slitastjórnir sem heyra þarna undir.

Gerð er rækileg grein fyrir umbótaverkefnunum sem rædd hafa verið í greinargerðinni og gögnum sem fylgja með málinu. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kom inn á það. Við munum alltaf þurfa að uppfylla reglur óháð breytingum á þessu sviði, það er alveg ljóst að við þurfum að geta uppfyllt kjarnareglur alþjóðabankaeftirlitsnefndarinnar um virkt fjármálaeftirlit. Það hverfur ekki frá okkur hvernig sem þessum málum yrði svo skipað. Vel má vera að það eigi allt eftir að sæta endurskoðun á komandi árum. Það er ýmislegt í farvatninu í þeim efnum samanber þær skýrslur sem komið hafa fram um skipan mála á fjármálamarkaðnum og ég get vísað til, bæði þeirrar skýrslu sem fram kom í apríl í vor og eins þess álits sem þrír sérfræðingar gáfu í framhaldinu nú í haust.

Tímabundið byggjum við á því skipulagi sem hér var að vera með aðskilda starfsemi í Seðlabankanum annars vegar og Fjármálaeftirlitinu hins vegar þar sem allt eftirlitið er komið á eina hendi. Síðan er í gildi samstarfssamningur sem endurnýjaður var 2011 á milli Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins til að reyna að tryggja að þessar tvær lykilstofnanir vinni saman að nauðsynlegum verkefnum sem þær þurfa að sinna.

Frú forseti. Að öðru leyti þakka ég fyrir þessa umræðu og vænti þess að hv. þingnefnd taki þetta mál til vandaðrar skoðunar.