141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[12:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við fáum botn í þetta mál. Það dugar ekki að hafa það alveg opið, eins og það er núna. Hæstv. ráðherra getur ekki borið það fyrir sig að hann hafi bara verið ráðherra í þessu ráðuneyti síðan í byrjun ársins. Það er desember og það eru ekki nein smámál á ferðinni. Ég vil vekja athygli á því að það voru röksemdir frá fyrirrennara hans um að fá 550 milljónir, til að hafa eftirlit með slitastjórnum.

Það hefur verið mikil umræða í þjóðfélaginu, m.a. frá hæstv. ráðherra sem fór mikinn í byrjun árs 2010 út af launum slitastjórna. Hann gagnrýndi þau harðlega með mjög stórum orðum og sagðist ætla að beita sér fyrir lækkun á launum þar. Hæstv. ráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sagði það.

Fjármálaeftirlitið hefur samkvæmt þeim gögnum ekki sinnt lögbundnu eftirliti. Ég er alveg hjartanlega sammála hæstv. ráðherra þegar hann segir að það sé engin spurning um að Fjármálaeftirlitið eigi að hafa eftirlit með slitastjórnum. Samkvæmt þeim gögnum sem hæstv. ráðherra leggur fyrir Alþingi og upplýsingum sem við fáum frá Fjármálaeftirlitinu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, hefur það ekki verið gert. Málið er af þeirri stærðargráðu að ég held að ef hæstv. ráðherra hefur ekki kannað það enn þá, þrátt fyrir að hafa verið allan þennan tíma í embætti og sjálfur haft stór orð um það og alla þá umræðu sem hefur verið í þjóðfélaginu, ætti hann að drífa sig því og upplýsa þingið. Það kemur fram í hans eigin gögnum að samkvæmt þeim upplýsingum sem við fáum frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd er lögbundnu eftirliti ekki sinnt. Ég mun ganga eftir því, virðulegi forseti, að fá þær upplýsingar. Ég var að vonast til að áhugi væri hjá hæstv. ráðherra til að gera það líka. Sérstaklega í ljósi ummæla hans í byrjun árs 2010 þegar hann fór mikinn og sagðist ætla að lækka laun slitastjórnarmanna, hvorki meira né minna.

Ég spurði hæstv. ráðherra í fyrstu ræðu minni hvort menn ætluðu ekki að koma á skýrri skipan varðandi neytendamálin þannig að það væri ljóst hvar þau væru. Síðan höfum við tekið umræðu í þingsalnum og erum komin á þann stað að hæstv. ráðherra segir að þau séu einfaldlega bæði hjá Fjármálaeftirlitinu og Neytendastofu.

Virðulegi forseti. Það er vandamálið, ef það hefur farið fram hjá hæstv. ráðherra. Það er kjarni málsins. Það eru að vísu fleiri stofnanir, sem ég man ekki eftir í svipinn, en það er kjarni vandans að neytendamálin eru ekki á einum stað. Ég spurði hæstv. ráðherra af hverju í ósköpunum það væri ekki svo. Hæstv. ráðherra kom og upplýsti okkur um að allt sé í fínu lagi, þau séu á tveimur stöðum.

Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra mun koma upp og upplýsa af hverju hann og hæstv. ríkisstjórn hafa ekki beitt sér fyrir því að það sé skýrt, á einum stað og lögð sé áhersla á það. Eftir því verður samt sem áður gengið, ef ekki í þessari umræðu þá í umræðunni í kjölfarið því að við þau mál má ekki búa. Það eru nú bara tvö mál sem ég tók upp, annars vegar varðandi eftirlit með slitastjórnunum og hins vegar varðandi neytendaverndina en það er af mörgu öðru að taka.

Ég tel að þau mál séu af þeirri stærðargráðu að mjög mikilvægt sé að fylgja þeim eftir. Ég mun gera það og vonast til að hæstv. ráðherra sýni frumkvæði í því að upplýsa okkur svo að við þurfum ekki að vera í endalausum eltingaleik við hann, eins og hefur verið í svo mörgum málum.