141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[12:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu en mér finnst svör hæstv. ráðherra við því hvar neytendavernd á að liggja ekki nógu góð. Það er ekki nógu gott að það séu tveir aðilar sem eiga að sinna sama verkefninu og vísa kannski hver á annan. Ég veit það ekki. Mér þætti betra að það væri sagt: Fjármálaeftirlitið sér um neytendavernd á fjármálamarkaði. Neytendastofa vísaði svo erindum þangað ef þau vörðuðu fjármálamarkað.

Nýjustu dæmin: Sala á hlutabréfum til almennings þegar vitað er að hringferlar fjár eru enn þá heimilaðar samkvæmt lögum. Það býður heim nákvæmlega því sama og gerðist fyrir hrun, menn spóluðu upp eigið fé með því að láta peningana fara í hring bæði í gegnum hlutabréf og í gegnum innlán, sem er enn erfiðara að rekja.

Nú er spurningin: Get ég til dæmis farið til Fjármálaeftirlitsins og gert athugasemd við að menn selji hlutabréf á markaði? Mundi Fjármálaeftirlitið bregðast við og skoða hvort tryggt sé að það séu ekki hringferlar fjár, t.d. að fyrirtækin lýsi því yfir að þau muni ekki stunda þá iðju?

Svo er það Eir, sem er alveg flunkunýtt dæmi. Eru fleiri slík dæmi í gangi í þjóðfélaginu þar sem sjálfseignarstofnanir selja búseturétt og ekki er tryggt að menn fái tryggingar fyrir þeim búseturétti og borga jafnvel milljónir fyrir? Samningur sem kannski á að standa í áratugi, þangað til menn andast.

Frú forseti. Mér finnst það ekki nógu gott. Mér finnst til dæmis ekki nógu gott að í skipuriti Fjármálaeftirlitsins sé hvergi kassi sem segir neytendavernd og það séu einhverjir aðilar sem sinna því og engu öðru. Ég veit að það er mjög stór þáttur í því að fólk varð fyrir miklu tjóni. Sparisjóðirnir til dæmis hvöttu menn til að taka lán til að kaupa stofnbréf í sparisjóðnum. Þau áttu að vera gulltryggð en voru svo verðlaus. Menn sátu uppi með lánin og mikla angist. Þeir fengu það reyndar niðurfellt en þeir sem settu eigið fé í það töpuðu sínu, bændur og aðrir sem keyptu stofnbréf í sparisjóðunum. Það var það sama með hlutabréf. Þetta er bara ekki nógu góð staða og ég held að menn þurfi að gera stórátak í því að laga hana.