141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

459. mál
[12:50]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Eins og kom fram í máli mínu þá fór ráðuneytið yfir allar forsendur útreikninga, eins og óskað var eftir í nefndaráliti meiri hlutans. Sú úttekt eða könnun leiddi ekki til þess að efni væri til að gera breytingar á flokkun svæða eitt og tvö. Þar eru tilteknar viðmiðanir notaðar í sambandi við vegalengdir og fjarlægðir. Menn verða auðvitað að halda sig við einhverjar reglur þegar þeir flokka svæðin niður í þessa tvo flokka, þ.e. þau sveitarfélög eða þær byggðir á landinu sem á annað borð eiga rétt á slíkum greiðslum samkvæmt byggðakortinu. Ég held að það svari spurningu hv. þingmanns að ekki eru efni til þess miðað við þær viðmiðanir sem þarna eru notaðar.

Vestfirðir og norðausturhornið falla undir viðmiðanirnar um 20% endurgreiðslu og síðan í grófum dráttum restin af landinu utan höfuðborgarsvæðisins í 10%. Vopnafjörður kom að vísu út með hærri flutningskostnað í þessum útreikningum en eldri útreikningar höfðu sýnt en hann er hvort sem er inni á 20%-svæðunum þannig að það verður ekki meira gert við því.

Ég fagna auðvitað þeim hug sem hv. þingmenn sýna þessu máli og í sjálfu sér stendur ekki á mér ef það verður vilji manna að leggja í þetta aukna fjármuni á komandi árum. Þetta er áætlunartala. Talið var að endurgreiðslurnar mundu verða nálægt 200 millj. kr. miðað við þær viðmiðanir sem þarna eru lagðar upp og sú áætlun stendur enn. Hvort það verða 190 eða 210 millj. kr. er erfitt að segja nákvæmlega fyrir fram, en þetta er áætlun miðað við það sem raunkostnaðurinn var talinn vera og síðan endurgreiðslur í hlutföllunum 10% og 20%.

Hár flutningskostnaður á landsbyggðinni er því miður ekki nýtilkominn. Þetta er búið að vera klassískt viðfangsefni og umræðuefni árum og áratugum saman. Ég verð nú að segja við þá hv. þingmenn Tryggva Þór Herbertsson og Birki Jón Jónsson (BJJ: Þá góðu þingmenn) — góðu þingmenn og vösku baráttumenn — að þeir hefðu mátt ýta við félögum sínum fyrr. Ætli það hafi ekki verið 2002 sem Byggðastofnun kom með skýrslu um þessi mál og lagði til aðgerðir á sviði flutningsjöfnunar? Mér er það enn í nokkuð fersku minni að í kosningabaráttunni 2003 voru gefnar miklar yfirlýsingar af þáverandi stjórnarflokkum um að þetta yrði gert strax eftir kosningar. En það þurfti nú þessa ríkisstjórn, við erfiðar aðstæður og miklu erfiðari í ríkisfjármálum, til að leggja af stað yfir höfuð með þetta kerfi. Menn höfðu ekki sett það á áður. Það er ekki vegna þess að hár flutningskostnaður í fjarlægum og afskekktum byggðum sé nýtilkominn.

Við erum nú að leggja upp í þessa vegferð. Greiðslurnar verða inntar af hendi eftir áramót. Það er ákaflega mikilvægt að samstaða sé um að þróa þetta kerfi. Við teljum að við séum að gera það meðal annars með því að fela Byggðastofnun verkefnið þar sem ég tel að það sé betur komið en í ráðuneyti. Byggðastofnun er rétti aðilinn til að koma með tillögur til stjórnvalda um breytingar á fyrirkomulaginu ef menn sjá ástæðu til. Þar er mikil þekking á þeim aðstæðum sem þarna er við að glíma og stofnunin stendur óumdeilanlega næst því af öðrum á landinu að skoða þessi mál ofan í kjölinn.

Ég veit ekki betur, af því að hæstv. innanríkisráðherra er nú í salnum, en að áform um að gera tilraun með strandsiglingar séu svo í vinnslu og fari af stað á næsta ári. (Gripið fram í: Hann er búinn að klúðra því.) Þá er eitthvað jákvætt að gerast í þessu þó að seint sé.

Ég þakka fyrir stuðninginn og áhugann sem þessu máli er sýndur.