141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

459. mál
[12:56]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í mínum huga er sama hvaðan gott kemur. Ekki hef ég áhuga á því að taka heiður af Hagfræðistofnun ef hún hefur lagt þarna gott til mála í sinni tíð, en ég man hitt fyrir víst að Byggðastofnun var líka með þetta í skýrslu sem var mikið rædd, kannski á grundvelli fyrri vinnu. Reyndar er málið miklu eldra en það því að svo lengi sem ég man í stjórnmálum, verandi þingmaður í landsbyggðarkjördæmi, þá hefur hár flutningskostnaður verið mikið á milli tannanna á mönnum, eðlilega. Hann er auðvitað tilfinnanlegur og dæmi eins og hv. þingmaður nefnir af stóru framleiðslufyrirtæki á Akureyri þekkjum við öll. Við þekkjum það hvernig flutningskostnaðurinn ýtti ýmissi framleiðslustarfsemi einfaldlega í burtu og suður, svo sem málningarframleiðslu og öðru slíku sem áður stóð í blóma. Þetta er tilfinnanlegur þröskuldur fyrir alla framleiðslustarfsemi, einkum eftir því sem fjær dregur frá meginmiðstöðvunum, og þeim mun mikilvægara er að við komum þessu á og komum þessu í framkvæmd og þróum það svo eftir atvikum og/eða setjum í það meiri fjármuni ef við teljum okkur hafa þá á komandi árum. Ekki skal standa á mér í þeim efnum.