141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

vegabréf.

479. mál
[12:59]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til breytinga á lögum nr. 136/1998 um vegabréf, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að gildistími almennra vegabréfa fullorðinna verði færður til þess horfs sem var við gildistöku núgildandi laga um vegabréf, sem var tíu ár. Með breytingunni á lögum um vegabréf frá 2006, lög nr. 72/2006, var gildistími vegabréfa færður í fimm ár frá útgáfudegi óháð aldri manna. Rökin fyrir þeirri breytingu voru upptaka lífkenna við útgáfu vegabréfa hér á landi og hugmyndir manna um endingu slíkra vegabréfa. Margir framleiðendur örflaga á þessum tíma treystu sér ekki til að ábyrgjast að örflögurnar entust í tíu ár vegna þess að mikill hluti þeirrar tækni væri of nýr til að reynsla væri komin á langvarandi notkun vegabréfa af þessu tagi. Var því fimm ára gildistími valinn eins og reyndar mörg önnur ríki gerðu.

Nú er komin átta ára reynsla af örflögunni og er hún í alla staði góð sem mælir með lengri gildistíma vegabréfsins. Hagræði er fyrir einstaklinginn að þurfa aðeins að sækja um endurútgáfu vegabréfs á tíu ára fresti í stað fimm. Nokkur Evrópulönd miða við tíu ára gildistíma vegabréfs fyrir fullorðinn einstakling en 5–6 ára gildistíma fyrir börn og hér er mælt fyrir um að gildistími vegabréfa þeirra sem eru undir 18 aldri verði óbreyttur, fimm ár.

Sérstaklega er vakin athygli á því að fjárhagsleg áhrif þess að lengja gildistíma vegabréfa almennt úr tíu árum í fimm fer ekki að skila sér fyrr en á árinu 2017 og fyrst að fullu árið 2018. Útgáfa vegabréfa er kostnaðarsöm og hefur farið hækkandi sökum gengisþróunar síðustu ára. Verði frumvarp þetta að lögum verður heildarkostnaður lægri fyrir fullorðna vegna útgáfu vegabréfa til tíu ára. Jafnframt mun kostnaður við innkaup og framleiðslu vegabréfa lækka þegar áhrifa þessarar breytingar fer að gæta.

Að svo mæltu, hæstv. forseti, legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar til umfjöllunar.