141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

vegabréf.

479. mál
[13:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir framsögu hans í þessu máli. Ég er fylgjandi þessari breytingu vegna þess að mér finnst það of ört að hafa þurft að endurnýja vegabréf á fimm ára fresti og var mjög undrandi þegar farið var í þá aðgerð. En ráðherrann fór yfir að það hefði verið vegna örgjafanna sem sett voru í vegabréfin.

Þegar tíminn er aftur lengdur í tíu ár skiptir mestu sá mikli kostnaður sem fellur á ríkissjóð varðandi útgáfu vegabréfa. Við samþykktum hér fyrir skömmu fjáraukalög þar sem bætt var í vegabréfaútgáfu, réttara sagt vegabréfin sjálf sem þarf að kaupa að utan. Ef mig brestur ekki minni þá held ég að þurft hafi að bæta við meira en 100 milljónum.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að nú liggur fyrir að lengja eigi þetta aftur í tíu ár og vegna mikils kostnaðar ríkisins af vegabréfaútgáfu, þ.e. skírteinisins sjálfs: Kemur gjaldið til með að hækka við lengdan gildistíma eins og boðað er hér eða telur ráðherrann að um einhvers konar jöfnunargjald sé að ræða, þ.e. að tíu ára vegabréf héðan í frá, frá því að lögin taka gildi, komi til með að kosta svipað og það gerir í dag? Eða ætlar ríkissjóður að nota tækifærið til að velta einhverju af þessari hækkun, sem hlýst af því að vegabréf eru orðin svo dýr í innkaupum frá útlöndum, út í verðlagið til þeirra sem sækja um vegabréf?