141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[13:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998.

Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði dómstólalaganna sem kveður á um að fjöldi dómara í héraði skuli vera 43 verði framlengt um eitt ár en heimildin fellur úr gildi um næstu áramót.

Þá er lagt til að heimild til að skipa varadómara í Hæstarétt verði rýmkuð. Í kjölfar þess aukna álags sem varð hjá bæði héraðsdómstólum og Hæstarétti í kjölfar bankahrunsins var gerð breyting á lögum um dómstóla og dómurum í héraði fjölgað úr 38 í 43 og í Hæstarétti úr 9 í 12. Er þessi fjölgun dómara tímabundin að því leyti að eftir 1. janúar 2013 verður ekki ráðið í þær dómarastöður sem losna þar til fjöldi dómara í héraði er aftur orðinn 38 og fjöldi dómara í Hæstarétti er aftur 9. Búast má við því að á næstu tveimur til þremur árum gangi þessi fjölgun hæstaréttardómara til baka og þrír héraðsdómarar munu hætta störfum á næsta ári. Fyrir liggur að álag á dómstólunum er enn mikið þar sem ekki hefur verið leyst úr öllum þeim ágreiningsmálum sem varða slitastjórnir bankanna og mál frá embætti sérstaks saksóknara. Hefur dómstólaráð og Hæstiréttur farið þess á leit við ráðuneytið að gripið verði til aðgerða svo áfram verði unnt að leysa innan ásættanlegs tíma úr þeim málum sem lögð eru fyrir dómstólana.

Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að framlengt verði til 1. janúar 2014 ákvæði dómstólalaganna um að dómarar í héraði skuli vera 43 en eftir þann tíma verði ekki ráðið í þær dómarastöður sem losna fyrr en dómarar í héraði eru aftur orðnir 38.

Í öðru lagi er lagt til að heimilt verði að skipa varadómara í Hæstarétti í einstökum málum, þó svo að sæti dómara sé ekki autt. Um áramótin fellur úr gildi ákvæði 45. gr. dómstólalaganna sem kveður á um að dómarar í Hæstarétti verði 9. Ekki verður því skipað í þær stöður dómara sem losna eftir þann tíma. Með því að rýmka heimildina til skipunar varadómara verður unnt að fjölga dómurum í Hæstarétti til að takast á við aukinn málafjölda án þess að skipa þá varanlega í embætti. Er lagt til að þessi heimild verði tímabundin og falli úr gildi 31. desember 2016.

Í þriðja lagi er lagt til að heimilt verði að skipa varadómara sem orðnir eru 70 ára úr hópi þeirra sem uppfylla skilyrði dómstólalaga til að gegna embætti hæstaréttardómara. Einnig verði unnt að setja hæstaréttardómara tímabundið í starf dómara sem fengið hefur leyfi frá störfum þó að hann hafi náð 70 ára aldri.

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar og 2. umr.