141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[13:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir þessa ræðu. Ég og minn flokkur erum mjög fylgjandi því að dómstólar njóti styrkingar. Þar sem þeir eru hluti af þrígreiningu ríkisvaldsins verður að ríkja um þá sátt og þeir þurfa að vera frjálsir í störfum sínum. Þess vegna gleðst ég yfir því að styrkja eigi þá enn frekar með því í fyrsta lagi að framlengja þetta lagaákvæði um héraðsdómara og svo hitt að með þessu kemur aukið fjármagn og þá er hægt að leysa hraðar úr þeim málum.

Í greinargerðinni kemur fram að munnlega fluttum einkamálum hafi í heildina fækkað en ágreiningsmál sem varða gjaldþrotaskipti hafa tæplega tífaldast. Það kemur fram að þau séu mjög þung og tímafrek í vinnslu. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að áhersla skuli lögð á að dómstólarnir skuli styrktir. Það er öllum til hagsbóta að dómstólarnir vinni hratt og örugglega úr þeim málum sem eru ágreiningsmál.

Eitt af því sem vakti athygli mína í frumvarpinu, og ætla ég að spyrja hæstv. innanríkisráðherra að því, er ákvæði um að rjúfa megi 70 ára aldursskilyrði hæstaréttardómara. Er svo mikill skortur á lögmönnum með þessa reynslu að víkja þurfi frá þessu aldursákvæði? Eða hver er skýringin á því að nú skuli vikið frá því ákvæði að dómarar skuli ekki starfa við réttinn séu þeir orðnir 70 ára?