141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[13:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er á sömu slóðum og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir varðandi þetta mál og ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra um þessa 70 ára reglu, að menn geti verið eldri en 70 ára. Ég vil fagna því að það sé verið að leita til þeirra sem hafa almennt meiri reynslu og það á að vera frekar algild regla. Mér finnst miður til dæmis að eitt það fyrsta sem þessi ríkisstjórn gerði var að taka af frítekjumark þeirra sem eru 70 ára og eldri, fólks sem er á besta aldri, getur sinnt ýmsum störfum o.s.frv.

Varðandi þetta sérstaka mál er ég að velta fyrir mér, af því að hér stendur í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Þetta felur til dæmis í sér að fyrrverandi hæstaréttardómarar með mikla reynslu gætu tekið sæti í einstökum málum en slíkt ætti að stuðla að meiri skilvirkni en ef varadómarar kæmu úr röðum þeirra sem ekki búa yfir slíkri starfsreynslu.“

Erum við þá að segja að til dæmis héraðsdómarar sem hafa áralanga reynslu, jafnvel áratugareynslu, séu ekki jafnburðugir til þess að sitja sem varadómarar og þeir sem eru fyrrverandi hæstaréttardómarar, 70 ára og eldri? Síðan velti ég líka fyrir mér aðkomu lögmanna. Ég held að það skipti mjög miklu máli varðandi réttinn, Hæstarétt Íslands, og það er umhugsunarefni hvernig valið er inn í hann, bara þannig að því sé haldið til haga. Ég er ekki viss um að það fyrirkomulag sem nú er sé endilega það besta varðandi það að velja hæstaréttardómara og ég held í ljósi reynslunnar að það sé eitthvað sem við eigum að fara betur yfir, en það er önnur saga.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þetta: Hvað með lögmenn? Af því að rétturinn verður að búa líka yfir þessari fjölbreytni varðandi lögmennina. Við eigum ekki eingöngu að taka úr dómarastéttinni heldur verða þetta að vera lögmenn o.s.frv. Ég spyr: (Forseti hringir.) Er ekki einmitt upplagt að heimila lögmönnum í ríkara mæli að fara inn og vera varadómarar til þess að þjálfa þá (Forseti hringir.) upp í að verða hæstaréttardómarar síðar meir?