141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[13:22]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi fyrri spurninguna, fjárhagsþáttinn. Ég þarf að skoða það atriði nánar, treysti mér ekki til að svara því að svo stöddu. Eðlileg spurning og eðlilegt að ég hefði haft svar á reiðum höndum, sem ég hef ekki.

Varðandi millidómstigið er alveg rétt að samstaða hefur legið í loftinu milli nánast allra þeirra sem að réttarfarskerfinu koma, um þörfina á því. Síðan hafa verið mismunandi áherslur um hvaða leiðir við eigum að hafa og hve mikil og víðtæk verkefni við eigum að fela því annars vegar og Hæstarétti hins vegar.

Ég efndi til samræðufundar fyrir fáeinum vikum með nánast öllum sem aðkomu hafa að réttarfarskerfinu, öllum hagsmunaaðilum, réttarfarsnefnd, öllum sérfróðum aðilum um þessi efni. Þar voru settar fram ýmsar hugmyndir sem réttarfarsnefnd er að fara yfir. Að hvaða marki það byggir á tillögunum sem nefndir sem hv. þingmaður vísar til hafa gert þarf í rauninni lengra mál en svo að það sé hægt að svara því í einu andsvari. En ég held að það væri ráð að við tækjum góða umræðu um þetta í þinginu, ég held að það sé áhugamál alls réttarkerfisins og líka Alþingis að koma þessu á laggirnar.

Ég hélt þegar ég kom fyrst í núverandi embætti mitt að það yrði hægur leikur að gera á þessu breytingar þegar nánast allir, öll samtök dómara, lögmanna og réttarkerfið í heild sinni virtust vera sammála um grunnforsendurnar. Enda er brýn nauðsyn til að gera á þessu breytingar samkvæmt skuldbindingum okkar gagnvart mannréttindasáttmálum. (Forseti hringir.) Það er hægara sagt en gert og þarf að taka tíma, en við vinnum mjög markvisst að þessu og ég er tilbúinn að koma með skýrslu til þingsins um stöðu málsins á nýju ári.