141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[13:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eftir hrun kom í ljós að mikið yrði um málaferli og mörg mál voru þá óleyst og óljós. Því miður hefur ekki tekist eins og skyldi að ráða úr úrlausnarefnum sem varða til dæmis skuldamál heimilanna, sem eru þannig að jafnvel enn þann dag í dag, fjórum árum eftir hrun, vita heimilin mörg hver ekki hvað þau skulda og hvað þau eiga. Fólk getur ekki skilið, fólk getur jafnvel ekki dáið því ekki er á hreinu hvað heimilin skulda eða eiga.

Þetta er náttúrlega alveg ófært ástand, frú forseti, en við breytum því ekki aftur í tímann. Hér er verið að bregðast við því að lengja það tímabil sem á að hafa fleiri dómara, sem var sem betur fer farið út í og ég er mjög hlynntur því. Hér er líka verið að tala um að ráða megi menn í stöður sem eru orðnir sjötugir. Þá kem ég inn á mál sem ég held að þjóðfélagið ætti nú að fara að velta fyrir sér. Þessi regla að taka menn út af atvinnulífinu með fullu og öllu við 67 ára aldur eða sjötugsaldur eða eitthvað slíkt — hjá opinberum starfsmönnum er það þannig að menn mega bara ekki vinna eftir sjötugt. Það held ég að sé mjög varasöm stefna vegna þess að hún nýtir ekki þá hæfileika og þá reynslu sem fólk býr yfir. Hún tekur ekki mið af þeirri staðreynd að fólk er miklu sprækara núna en það var fyrir 15, 20, 30 eða 40 árum. Þessi aldursmörk voru sett fyrir hálfri öld þegar dánarlíkur voru miklu meiri og lífslíkurnar miklu minni og fólk var bæði veikara og þreyttara en í dag.

Ég held að við þurfum að skoða þetta mjög nákvæmlega og hef flutt frumvarp nokkrum sinnum um að hækka þessi aldursmörk verulega og hyggst gera það aftur. Það getur vel verið að ég noti tækifærið þegar þetta frumvarp liggur fyrir og komi með breytingar á 31. gr., sem er um að það eigi bara að taka fríska dómara úr sambandi við sjötugt hvort sem þeir vilja eða ekki. Mér finnst að þeir dómarar sem vilja starfa áfram megi þá kannski minnka við sig hlutfall eða eitthvað slíkt, það skiptir ekki máli vegna þess að hæstaréttardómarar eru víst á fullum launum áfram. En að þeir sem vilja megi sem sagt taka þátt í dómstörfum og þjóðfélagið nýti þeirra reynslu og þekkingu sem er oft áratugareynsla og mjög verðmæt.

Ég mundi vilja að þeir sem vildu mættu minnka við sig hlutfallið, þyrftu ekki að hætta allt í einu eða ekki, og eins að menn geti frestað því að hætta að fullu jafnvel til áttræðs eða 85 ára aldurs. Sumir eru ótrúlega ferskir og sprækir langt fram eftir aldri, aðrir eru þreyttari og sumir orðnir mjög þreyttir 67 ára. Þeir sem eru þreyttir og farnir að gleyma og annað slíkt geta þá hætt 67 ára mín vegna og farið á lífeyri og annað slíkt. En að þjóðfélagið sé að segja mönnum að þeir eigi að hætta, sérstaklega opinberum starfsmönnum, það finnst mér mjög miður.