141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[13:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég verð samt að ítreka spurningu mína um hvort menn hafi farið yfir það að til að ná því fram að þetta virki raunverulega sem jafnréttistæki, í ljósi þess að þarf að forgangsraða í ríkisfjármálum, hefði verið skynsamlegra að halda tímanum en að hækka mörkin. Þá ekki síst út frá því sem við vitum úr rannsóknum og niðurstöðum þeirra um að það séu þeir karlar sem eru tekjulægri. Það er því risastór hópur sem tekur ekki fæðingarorlof vegna þeirra marka sem eru í frumvarpinu. Mátu menn hvort væri skynsamlegra að fara í lenginguna eða hækkunina?

Síðan má alltaf velta því fram og til baka. Ég nenni ekki að fara út í eitthvert hnútukast við hæstv. ráðherra um hvort það sé kosningamál eða ekki. Það liggur ljóst fyrir að virkni málsins mun ekki koma fram fyrr en á þarnæsta kjörtímabili, ef ég hef lesið það rétt í málinu sjálfu. Málið sem slíkt er mikilvægt og það er gott að við ræðum það á þingi. Ég hefði kosið að fleiri væru í salnum þegar við ræðum þýðingu þess en ég efast ekki um að þegar málið kemur aftur hingað til umfjöllunar eftir meðferð nefndar, verðum við fleiri sem munum tjá okkur um það og ég fagna því sérstaklega að málið sé komið fram.