141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

498. mál
[14:28]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, sem hefur barist fyrir því að menn reyni að halda fjárlög, að það er afar óþægilegt þegar liðir fara verulega fram úr fjárlögum. Það á sér þó skýringar í þessu tilfelli. Það verður líka að taka það fram að þetta er óvenjuleg stofnun að því leyti að hún er fjármögnuð alfarið af þeim aðilum sem nefndir voru hér og eru að langstærstum hluta Samtök fjármálafyrirtækja. Sérstök samráðsnefnd fjallar þar um fjármálin og hvaða prósentu eigi að nota á hverjum tíma og hvernig eigi að tryggja tekjur stofnunarinnar. Það er að fengnu áliti þeirra og tillögum, auk umboðsmanns skuldara, sem þessar breytingar eru gerðar.

Það hefði auðvitað verið hægt að draga úr rekstri, en við skulum horfa á það að á haustmánuðum var umboðsmaður með um 400 mál sem voru á leiðinni inn í samninga, þ.e. hjá skuldurum, og voru loksins komin í ferli sem verið var að ljúka. Eins og menn vita er sú þjónusta ýmist unnin hjá stofnuninni eða keypt af lögfræðingum úti í bæ samkvæmt ákvæðum laganna. Það þótti engan veginn fært að setja þessa 400 aðila í þá stöðu að bíða í langan tíma. Þetta var umsókn frá okkur til fjáraukalaga um þessa upphæð, en ákveðið var að taka þetta á einu bretti í gjaldskrárhækkun.

Það er klaufalegt af mér að hafa ekki nákvæmlega skiptinguna á prósentum milli sjóðanna. Auðvitað er hún metin á hverju ári. Það kom fram í umræðunni um Íbúðalánasjóð í gær, að ég held, að Íbúðalánasjóður væri með um þriðjung af þessum kostnaði, lífeyrissjóðirnir minna en þeir eru þó að koma inn í vaxandi mæli. Það fara því umtalsverðar upphæðir á þessa aðila, en eftir sem áður eru bankarnir með stærstu tölurnar.