141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

498. mál
[14:33]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum sammála um að mikilvægt sé að ná utan um reksturinn og að markaðar tekjur þýði ekki að stofnunin geti hækkað útgjöld sín ótakmarkað. Það sjá allir að embætti umboðsmanns skuldara hefur mikla sérstöðu að því leyti að það hefur gríðarlega mikinn fjölda mála. Það fjallar um mál fólks sem lendir á götunni ef það fær ekki úrræði á þessum stað. Þetta er að vísu embætti sem er komið til að vera, það hefur sýnt sig að það er nauðsynlegt, því þannig er það stofnað. Embættið hefur fengið verkefni langt umfram það sem það ræður við að óbreyttu nema vera með mikinn mannskap til skamms tíma.

Við verðum að sjá til þess að við séum ekki að reka sjálfstæða stofnun með milljarð í árlega fjárveitingu, sem er svipað og velferðarráðuneytið með öllu, til langs tíma. Kostnaður verður að nást niður. Opinberu sjóðirnir greiða í þetta en líka almennu sjóðirnir. Það er rétt að auðvitað mætti hugsa sér að þetta félli svo á ríkissjóð í gegnum Íbúðalánasjóð. Við skulum ekki vanmeta það að ef tekst að hreinsa til, þarna er verið að fara heildstætt yfir skuldir, er verið að bæta lánasafn Íbúðalánasjóðs um leið, þ.e. ef tekst að færa niður lán því að ekki er bara verið að tala um húsnæðislán, það er verið að tala um öll lán hjá viðkomandi einstaklingum og laga til í því umhverfi og færa þau niður verulega. Í mörgum tilfellum er verið að færa þau niður um allt að 70% með samningum í lok ferlis hjá umboðsmanni, þá er um leið líka verið að laga lánasafnið og tryggja að menn tapi ekki öllu síðar meir, þannig að þetta eru bæði tekjur og útgjöld hvað það varðar.