141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

498. mál
[14:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er ákaflega áhugavert mál og vekur satt að segja mjög margar spurningar. Í fyrsta lagi vekur það spurningu um það sem fór greinilega úrskeiðis í rekstri stofnunarinnar á síðasta ári. Farið hefur verið yfir það að rekstrarhalli stofnunarinnar var um 250 millj. kr. á síðasta ári, og er farin sú leið að leggja á viðbótargjald á næsta ári til að standa straum af því sem vanmetið var í rekstri stofnunarinnar á síðasta ári. Þetta er út af fyrir sig mál sem þarf að fara ofan í. Við sem sitjum í velferðarnefnd munum gera kröfu til þess að þegar fulltrúar stofnunarinnar koma á okkar fund fari þeir yfir hvað hafi í raun gerst í rekstri stofnunarinnar sem hafi réttlætt að fara 25% eða svo fram úr því sem áætlað var miðað við tekjur stofnunarinnar. Þær voru áætlaðar í kringum 1 milljarður, en þarna er verið að bæta í tæpum 250 millj. kr. Þetta er forsagan.

Það sem vekur hins vegar kannski stærri spurningar hjá mér er staðan sem uppi er fyrir árið 2013. Það kemur nefnilega fram í fjárlagafrumvarpinu að gert hafi verið ráð fyrir því að lækka útgjöld stofnunarinnar um 170 millj. kr. Ástæðan sem tilgreind er í greinargerð sem fylgir frumvarpinu er sú að umsvif stofnunarinnar séu að minnka og gert ráð fyrir að hún muni dragast saman á næsta ári í takt við fækkun mála. Meginþungi starfseminnar muni fyrst og fremst snúast um að ljúka samþykktum greiðsluaðlögunarmálum, auk þeirra mála sem talið er að berist til stofnunarinnar á árinu 2013. Þetta var sagt um miðjan september. Nú erum við stödd í desemberbyrjun þremur mánuðum síðar og þá komast menn skyndilega að þeirri niðurstöðu að óraunhæft sé að skera niður rekstur stofnunarinnar um 170 milljónir. Allar væntingar um að við séum að ná utan um þennan greiðsluvanda eru greinilega runnar út í sandinn.

Það er ekki þannig að menn hafi náð utan um það sem menn hafa kallað hér úr ræðustól og alls staðar skuldavanda heimilanna, og það hefur reyndar komið fram í viðræðum velferðarnefndar við fulltrúa umboðsmanns skuldara. Þessi vandamál eru til staðar og úrlausn er ekki í sjónmáli. Ekki aðeins á stofnunin eftir mörg ófrágengin mál, ýmsum málum sem stofnunin hefur lokið afgreiðslu sinni á er ekki búið að ná fram vegna þess að tilsjónarmenn, sem síðan taka við verkefninu, hafa ekki lokið uppgjöri þeirra. Hin endanlega úrlausn fyrir skuldarann er því ekki í höfn. Þarna hleypur á býsna mörgum málum, ég hef því miður ekki í kollinum hversu mörg þau eru, en það var áberandi í skýrslu umboðsmanns til velferðarnefndarinnar að svo er.

Enn fremur hefur komið fram að inn eru að koma mörg ný mál, einstaklingar sem ekki voru í vanda eru nú komnir í vanda. Slík mál eru að koma inn í stofnunina. Það er ljóst af því sem hér er verið að gera að vonir manna í september um að við værum að ná utan um skuldavandann hafa ekki ræst, því miður. Við erum enn þá í miðju þessu feni. Það tel ég vera mesta áhyggjuefnið. Eitt er að hafa keyrt aðeins út af í rekstri stofnunarinnar í fyrra, en hitt finnst mér miklu óhugnanlegri framtíðarsýn að vita að á árinu 2013 þurfi stofnunin eftir sem áður að hafa sambærilegt rekstrarumfang eins og hún þurfti þegar upp var staðið árið 2012 og að hún þurfi núna 22% hærri fjárveitingu en gert var ráð fyrir um miðjan september þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Við þurfum að fá úr því skorið hvort þetta hafi verið vanmat af hálfu ráðuneytisins eða hvort þetta hafi verið sameiginlegt mat ráðuneytisins og stofnunarinnar eða hvað hafi gerst.

Að öðru leyti vil ég segja að þetta leiðir hugann að því hvort við höfum verið á réttri braut með nálgun okkar á úrlausn skuldavanda heimilanna. Auðvitað er þar margt ógert. Það er út af fyrir sig efni í langa ræðu. Ég ætla ekki að hefja hana núna, en það sem mér finnst svo athyglisvert er að sjá tölurnar yfir í þá raunverulegu skuldalækkun sem heimilin hafa fengið á undanförnum árum.

Við munum öll talið um skjaldborgina um heimilin, sem var framreitt til okkar úr Norræna húsinu á sínum tíma við myndun þessarar ríkisstjórnar. Vísað var til þess að mikið svigrúm væri í nýju bönkunum til að takast á við það að lækka skuldir heimilanna. Við vitum að stærstur hluti skulda heimilanna eru verðtryggð lán, en þegar við skoðum hins vegar raunveruleikann er hann eftirfarandi — og ég er hér með rúnnaðar tölur:

Heildarskuldalækkun heimilanna frá haustdögum 2008 er í kringum 200 milljarðar kr. Það er væntanlega sú tala sem hagfræðingurinn Lars Christiansen vísar til þegar hann segir að býsna margt hafi tekist vel til varðandi lækkun á skuldum heimilanna. 200 milljarðar króna. Jú, það er mjög há tala. Er hér um að ræða meðvitaða stefnu ríkisstjórnarinnar við að lækka skuldir heimilanna? Er þetta skjaldborgin sem boðuð var í Norræna húsinu vorið 2009? Er þetta afrakstur af pólitískri stefnumörkun og aðgerðum sem boðað hefur verið til, m.a. á grundvelli starfs umboðsmanns skuldara, með 110%-leiðinni, sértækri skuldaaðlögun og því öllu saman? Er það þannig? 200 milljarðar? Nei, ekki alveg.

Þegar við skoðum upplýsingarnar sem meðal annars koma fram í svari hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá mér og nýlega var dreift kemur á daginn að endurútreikningur erlendra fasteignalána nemur meira en 50% af þessari skuldalækkun, þ.e. 110 milljarðar kr., og endurútreikningur vegna erlendra bílalána nemur tæpum 40 milljörðum kr., samtals 150 milljarðar kr. Þannig að um 75% af skuldalækkun heimilanna stafar af því að þessi lán voru dæmd ógild, þau voru ólögleg, það mátti ekki innheimta, þetta voru ekki réttar tölur í efnahagsreikningum bankanna, þetta var plat. Þetta var með öðrum orðum ekki pólitísk aðgerð heldur afleiðing af því að lög sem menn héldu að stæðust stóðust ekki, eða öllu heldur, aðferð við útreikning á tiltekinni tryggingu sem menn kölluðu gengistryggingu var ógild, hún stóðst ekki lög. Hún var dæmd ólögleg. Þannig að niðurfærslan á skuldum heimilanna er að mestu leyti afleiðing af því að lánin voru í ósamræmi við lög.

Þá komum við að því sem hefur verið á borðum annars vegar bankanna, 110%-leiðin, og síðan á borðum umboðsmanns skuldara, sem að hluta til er 110%-leiðin og að hluta til sértæk skuldaaðlögun. Umboðsmaður á ekki hlut að öllum skuldalækkunum í 110%-leiðinni, aðeins hluta. Við getum því sagt að það sé skjaldborgin, 25% af skuldalækkuninni.

Við erum í fyrsta lagi að greiða á annan milljarð kr. á ári til umboðsmanns skuldara af því að við teljum að það sé gert í þeim mikilvæga tilgangi að lækka skuldir heimilanna. Í öðru lagi gengur þetta óskaplega hægt fyrir sig. Í þriðja lagi sjáum við að við höfum ekki komist út úr þessum vanda því að eftir sem áður er ætlað að á annan milljarð kr. þurfi á næsta ári til stofnunarinnar. Við hljótum því að þurfa að endurmeta þetta og skoða upp á nýtt, ekki til að gera minna fyrir skuldug heimili, þvert á móti, heldur til að sjá hvort við getum ekki farið einhverjar aðrar og skjótvirkari leiðir.

Virðulegi forseti. Þetta vildi ég leggja inn í umræðuna núna þegar við erum að hefja vinnu við þetta frumvarp. Ég ítreka að ég tel að það sé mikilvægt að takast á við skuldavanda heimilanna því að eitt af því sem tefur alla efnahagsuppbyggingu eru miklar skuldir heimila og síðan fyrirtækja. Ég hef miklar efasemdir um að við getum mögulega verið á réttri leið í ljósi þess að hæstv. ríkisstjórn þarf núna, þremur og hálfum mánuði eftir að áætlað hafði verið að lækka mætti fjárhæðirnar til umboðsmannsins um fimmtung, aftur að gera breytingar sem fela í sér rúmlega 20% hækkun á fjárveitingunni, og einnig í ljósi þess að það blasir við að skuldalækkun heimilanna er að langstærstum hluta í gegnum erlendu lánin svokölluðu. Hún gagnast þess vegna mjög sértækum hópi skuldara þar sem menn fá annars vegar verulega lækkun á skuldum sínum, sem voru kallaðar erlendar, og hins vegar miklu minni lækkun á verðtryggðum skuldum.

Þetta er að mínu mati fullt tilefni til mikils endurmats. Ég geri ekki ráð fyrir að við klárum það fyrir áramótin. Ég geri ráð fyrir að menn vilji afgreiða þetta mál með einhverjum hætti fyrir áramót, en þetta frumvarp er fullt tilefni fyrir velferðarnefnd Alþingis til að íhuga gang mála.