141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

staða ríkisfjármála.

[13:40]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum undanfarnar vikur rætt mikið ríkisfjármálin í tengslum við umræður um frumvarp til fjárlaga. Þar hefur margoft komið fram í máli stjórnarliða að staðan sé nú öll önnur en þegar stjórnarflokkarnir tóku við vorið 2009, það sé búið að ná ríkishallanum úr um 216 milljörðum niður í ekki neitt raunverulega eða sáralítið, 1.600 milljónir núna miðað við frumvarpið.

Það sem ég hef áhuga á að heyra frá hæstv. atvinnumálaráðherra er um muninn á bókhaldslegum aðferðum sem eru notaðar til að gera grein fyrir 13 milljarða framlagi Íbúðalánasjóðs vegna taps á sjóðnum annars vegar og hins vegar 192 milljörðum sem notaðir voru til að færa inn í Seðlabankann fjármögnun vegna tapaðra krafna sem rekja má til veðlána hans og tryggingabréfa aðalmiðlara. Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki örugglega rétt hjá mér að ef sama aðferð er notuð hafi hallinn 2008 verið 24 milljarðar en ekki 216 milljarðar eins og hingað til hefur verið talið, þ.e. að ef við notum aðferð ríkisstjórnarinnar hafi hallinn verið 24 milljarðar, ekki 216.