141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

staða ríkisfjármála.

[13:42]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Nei, þetta er því miður, frú forseti, ekki réttur skilningur hjá hv. þingmanni. Það kemur á óvart að hann skuli bera upp spurningu af þessu tagi miðað við allan sinn lærdóm á sviði hagfræði og stærðfræði.

Rétt eins og þegar ríkið setti 33 milljarða í Íbúðalánasjóð vegna þegar áfallinna afskrifta eða fyrirsjáanlegra afskrifta varð það niðurstaða ríkisreikninganefndar að þá fjármuni yrði að afskrifa samtímis. Af hverju var það gert? Vegna þess að það myndaðist ekkert eigið fé og það stæði ekkert eigið fé eftir á móti þegar framlagið hefði farið fram. Þannig var það með Seðlabankann haustið 2008. Þetta var sokkinn kostnaður, þegar tapað fé og það var bara horfst í augu við afskriftina upp á 192 milljarða sem þar var að verða. Það varð ekki til neitt eigið fé á móti færslunni.

Þegar eiginfjárframlag verður hins vegar sett inn í Íbúðalánasjóð núna mun það sannanlega auka umtalsvert eigið fé Íbúðalánasjóðs og þar verður eignfærsla á móti þannig að bókhaldslega eru þetta óskyldir hlutir. Það sem ræður úrslitum er það hvort um raunverulegt eiginfjárframlag er að ræða sem myndar eigið fé í efnahag viðkomandi aðila eða hvort þetta er sokkinn kostnaður, þegar tapað fé.

Síðan þakka ég hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á því að fjárlagafrumvarpið sem er í okkar höndum núna er mikið ánægjuefni og ef stefnir í að því verði lokað á svipuðum nótum og frumvarpið kom fram, með +/- 3 milljarða halla eða svo, 0,2% af vergri landsframleiðslu, eru það ævintýraleg tímamót sem ég veit að hv. þingmaður tekur undir með mér að eru mikið fagnaðarefni.

Það sem líka vekur bjartsýni um að þetta gangi betur eftir en kannski fyrri fjárlög er að tekjuhliðin er sannanlega að styrkjast. Það sem gerir okkur kleift að mæta ýmsum útgjöldum núna án þess að hallinn aukist er að tekjuhliðin er að styrkjast þannig að tekjuöflunaraðgerðirnar undanfarin ár eru að sanna gildi sitt.