141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

ný byggingarreglugerð.

[13:46]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég beini spurningu til hæstv. umhverfisráðherra út af nýju byggingarreglugerðinni sem skrifað hefur verið undir en sem spilar inn í gömlu reglugerðina sem er heimilt að nota til næstu áramóta. Hún er enn í gildi.

Á vegum atvinnuveganefndar fengum við áskorun um að taka þetta mál til umfjöllunar sem við og gerðum. Við höfum haldið þrjá mjög góða fundi um þetta mál. Það er alveg ljóst að þetta mun hafa gríðarleg áhrif á byggingariðnaðinn í landinu en það er líka ljóst að það er margt gott í þessari væntanlegu reglugerð þegar hún tekur endanlegt gildi. Það hefur komið fram að hún er heilar 180 blaðsíður. Þetta varðar eins og ég segi gríðarlega mikla hagsmuni hagsmunaaðila allra, jafnt þeirra sem eiga að njóta þess að vera í íbúðum og þeirra sem við ætlum að skapa betri skilyrði til að vera í íbúðum og byggingariðnaðarins, hvers sem er, þar með talið ríkisins.

Á fundi í gær sagði hæstv. umhverfisráðherra að þetta varðaði þessa miklu hagsmuni en þetta væru líka og ekki síður hagsmunir almennings. Því er ég alveg sammála. En ef þessi reglugerð mun hafa í för með sér, eins og sumir aðilar segja, allt að 10% hækkun á byggingarkostnaði, að dæmigerð þriggja herbergja íbúð muni hækka um 20% sem þýðir 2,5–3 millj. kr., spyr ég hæstv. umhverfisráðherra: Ef það gengur svona fram að hækkun byggingarkostnaðar hækkar vísitölu neysluverðs sem hækkar lánin hjá almenningi í landinu og skapar eigendum, þar með talið erlendum vogunarsjóðum, meiri eignir, eru það þá hagsmunir almennings á þessum tíma? Þar fyrir utan er tíminn núna afar slæmur til að taka (Forseti hringir.) þetta skref. Þess vegna spyr ég hæstv. umhverfisráðherra einfaldlega þessarar spurningar: Hvert er kostnaðarmat ráðuneytisins við þessa reglugerð eins og það stendur í dag? Ég tel mjög mikilvægt að það verði skráð í þingtíðindi (Forseti hringir.) hvað ráðherrann segir um þetta atriði.