141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

ný byggingarreglugerð.

[13:52]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég bið hv. þingmann að tala ekki gegn betri vitund þegar hann heldur því fram að þetta sé allt saman að gerast hér á miklum spretti í lok ársins 2012. Eins og hann veit og var farið ítarlega yfir í atvinnuveganefnd í gær hefur þessi vinna átt sér mjög langan aðdraganda og mér er til efs að önnur verkefni hafi verið unnin í eins breiðu samráði og nákvæmlega þetta verkefni.

Ég velti fyrir mér á hvaða nótum hv. þingmaður nálgast þetta með þessum boðaföllum sem hann viðhefur í ræðustóli þegar hann veit að nefndin sem fjallaði um þetta var skipuð í ársbyrjun 2010. Átta vinnuhópar störfuðu með nefndinni. Í hverri um sig voru átta til tíu nefndarmenn þannig að það eru hátt í 100 manns sem störfuðu að þessu um mismunandi (VigH: … er það?) kafla reglugerðarinnar. Allt miðaðist við að þetta yrði sem best úr garði gert og ég treysti því að hv. þingmaður nálgist það málefnalega (Forseti hringir.) að við séum fyrst og fremst að stíga hér skref í átt til betri byggingaframkvæmda á Íslandi.