141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

lengd þingfundar.

[14:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hygg að hv. þm. Mörður Árnason hafi sett nýtt met í að vera snöggur til að saka menn um málþóf. Umræðan er ekki einu sinni byrjuð en allt í góðu, það er þá búið að koma því á framfæri af hálfu í það minnsta hv. þm. Marðar Árnasonar að umræðan sem hér fer á eftir verður kölluð málþóf.

Ég velti hins vegar fyrir mér til hvers verið sé að hafa fund lengur í kvöld. Það má vera með fund til miðnættis og miðað við þá dagskrá sem hér liggur fyrir get ég ekki séð nokkurt einasta vandamál að klára þau mál sem liggur á að klára fyrir jól á réttum tíma. Ef verið er að vísa til þess máls sem er nr. 3 á dagskránni, um vernd og orkunýtingu landsvæða, er engin dagsetning á því. Það er svo sem gott ef menn vilja nota tímann fyrir jól til að ræða það mál því að það þarf mikla umræðu. Hér verða væntanlega ræddar nýjar tillögur í málinu sem hafa legið fyrir í þingskjölum, t.d. að vísa þessu aftur til ríkisstjórnarinnar. Við munum þurfa að spyrja út úr. Ég hvet hv. stjórnarþingmenn sem ætla sér að vera hérna í kvöld og þá væntanlega nótt (Forseti hringir.) að koma þá í andsvör við okkur.